151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna.

354. mál
[22:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu um þetta mikilvæga mál hér, sem er alveg ágætismál. Það er margt gott í því, samt ekki allt, svo það komi fram. Það sem ég vildi helst taka til í breytingartillögunni varðar skilgreiningar, sérstaklega í 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um orðskýringar. Ég mæli fyrir breytingartillögu varðandi 6. lið 2. gr. vegna þess að ekki er talið nægjanlega skýrt kveðið á um hvað það þýðir að vera foreldri.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp 6. tölulið:

„Foreldri: Foreldri og/eða forsjáraðili barns samkvæmt ákvæðum barnalaga. Hugtakið getur einnig átt við barnshafandi einstakling vegna samþættingar þjónustu á meðgöngu. Um hlutverk, samstarf og verkaskiptingu foreldra og forsjáraðila í einstökum tilvikum gilda ákvæði barnalaga og annarra sérlaga eftir því sem við á.“

Við hugtakið foreldri vantar að taka fram að það geti einnig átt við þá sem hafa reglulega umgengni við börn sín. Þetta er mjög mikilvægt ef við horfum til réttinda barna, að það sé alltaf gengið út frá því að börn hafi þann rétt að umgangast foreldra sína. Þetta er bara til að hnykkja á þessari skilgreiningu og þess vegna fannst mér mikilvægt að koma því að hér í kvöld.