151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna.

354. mál
[22:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir kynninguna á þessari breytingartillögu sem er góð og er einmitt sett fram til áréttingar, enda er um að ræða frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þá teljum við, og það kom líka alveg skýrt fram í umræðu um þingmannanefndarinnar, að þar sem um er að ræða samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sé mjög mikilvægt að öllum þeim sem annast börnin sé boðið að borðinu þegar verið er að samþætta þjónustu. Til að taka af öll tvímæli styð ég þessa breytingartillögu, eða er með í að leggja hana fram, þannig að það fari ekki á milli mála að þegar um foreldra er rætt erum við að tala um foreldra, hvort sem barnið býr hjá því foreldri eða það er foreldri sem nýtur umgengnisréttar við barn sitt. Þetta yrði til bóta fyrir málið í heild sinni til að þessi nauðsynlega samþætting verði. Að öðru leyti fagna ég því að við séum á lokametrunum með málið þó að ég hefði viljað fara örlítið aðra leið, þ.e. að seinka gildistöku til að tryggja persónuvernd. En við erum búin að ræða þetta í 2. umr. og ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar, en styð þessa tillögu.