151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

752. mál
[22:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Svo ég geri aðeins grein fyrir málinu þá láðist að bæta við breytingartillögu sem fellir á brott ákvæði um að ríkisendurskoðandi skuli endurskoða reikninga sjóðsins líkt og segir í nefndarálitinu. Þess vegna er þessi breytingartillaga lögð fram. En í nefndarálitinu segir varðandi endurskoðun reikninga, með leyfi forseta:

„Með 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Ríkisendurskoðun verði falin endurskoðun reikninga Ferðatryggingasjóðs. Ríkisendurskoðun vakti í umsögn sinni um málið athygli á því að Ferðatryggingasjóður fellur ekki undir hugtakið ríkisaðili eins og það er skilgreint í 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Það falli því utan starfssviðs ríkisendurskoðanda að endurskoða reikninga Ferðatryggingasjóðs. Nefndin leggur til að höfðu samráði við ráðuneytið að ákvæðið falli brott og setur fram breytingartillögu þess efnis að stjórn sjóðsins verði falið að láta endurskoða reikninga hans.“

Af þeim sökum er þessi breytingartillaga komin. Hún er stutt og góð og hljóðar svo:

„4. efnismgr. 2. gr. falli brott.“

Rétt skal vera rétt.