151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

tilkynning.

[10:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég veit ekkert um stympingar einstakra þingmanna og ætla ekki að blanda mér í það. Hins vegar er alveg ljóst að það er auðvitað ekki hægt að taka mál af þessu tagi á dagskrá í miðju kafi þegar við erum að reyna að ganga frá þinglokum. Málið kom fram, eftir því sem ég best veit, í gær. Mér finnst alveg fráleitt af Pírötum að vera að senda þetta tundurskeyti inn í þinglokasamninga með þessum hætti til að raska málum. Í þinglokasamningum er verið að semja um fjöldamörg mál, m.a. er verið að semja um fjöldamörg mál út af borðinu sem hafa fengið umfjöllun í þinginu í allan vetur. Það leiðir bara af sjálfu sér að það er ekki hægt að klára allt saman. Með því að stilla mönnum upp við vegg með þessum hætti eru þinglokasamningar settir í uppnám. Þess vegna er auðvitað ekkert annað að gera en að fella þessa dagskrártillögu.