151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

tilkynning.

[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að formaður atvinnuveganefndar skuli fara í þennan leiðangur, að leggja fram þingmál vitandi að ekki er meiri hluti fyrir því hjá meirihlutaflokkunum að koma því inn í þingið, og fari í þá vegferð að móbílisera einhverja bylgju um landið um að kenna stjórnarandstöðunni um að málið komist ekki á dagskrá. Ég hef verið hér í tólf ár og ég man ekki eftir svona vinnubrögðum, að menn leggist svona lágt, að fara í slíkan leiðangur, ég verð að segja það. Á sama tíma er í atvinnuveganefnd þingmál sem myndi taka á því sama sem hv. formaður nefndarinnar vill ekki taka á dagskrá sem varð til þess að fulltrúar Miðflokksins í nefndinni bókuðu athugasemd um að taka málið af dagskrá, en að sjálfsögðu varð formaður nefndarinnar ekki við því. Það er ekki boðlegt að taka þátt í þessu. Við munum ekki greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess hvernig formaður atvinnuveganefndar hagar sér í málinu.