151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

tilkynning.

[10:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög óheppilegt og kom fram á óheppilegum tíma. Málið er gott í sjálfu sér en ég tel ekki rétt á þessum síðustu lokametrum þegar við erum að reyna að ljúka þingi, og við vorum nú langt komin með það hér í gærkvöldi, að þetta mál sé tekið hér inn því að þetta er lagafrumvarp sem þarf auðvitað töluverða umræðu. Ég tel að að svo komnu máli, á þessum tímapunkti, sé bara ekki tími til þess að bæta einu máli ofan á. Við vorum búin að loka þeirri málaskrá sem við vorum með í höndum að mínu mati og allra annarra. Í samtölum okkar þingflokksformanna vorum við með ákveðinn lista sem við vorum að vinna með og héldum okkur stíft við hann. Ég vil ekki hvika frá því, þannig að Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun ekki greiða þessu máli atkvæði sitt, þ.e. að við verðum á rauða takkanum fyrir utan formann atvinnuveganefndar.