151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum hér stödd í einhverri senu í leikhúsi fáránleikans. Í stað þess að hafa farið í umræðu um mikilvægt mál á sínum tíma, á eðlilegum tíma, samþykkt tillögu sem fyrir lá, unnið með hana, verið fyrr með þetta mál, tekið samtalið til að útkljá mál sem varðar hagsmuni fjölda sjómanna og fjölskyldna þeirra, þá stöndum við hér föst í einhverjum formsatriðum af því að enn og aftur sýna stjórnvöld, sér í lagi formaður atvinnuveganefndar, að samvinna er eitthvert óþekkt fyrirbæri á þeim bænum. Þetta er staða sem hefði ekki þurft að koma upp, en við stöndum frammi fyrir henni. Við þingflokksformenn höfum setið og reynt að ná saman um þinglok. Þingflokksformaður Samfylkingar fór hér vel yfir málið. Það er fjöldi góðra mála sem hefur farið út af borðinu af hálfu, liggur mér við að segj, hvers einasta flokks og fjölmörg mál sem við hefðum viljað sjá fá forgang. Í ljósi stöðunnar ætla ég ekki að rjúfa það samkomulag. (Forseti hringir.) Þetta er hins vegar þörf og mikilvæg umræða og ég þakka Pírötum fyrir að hafa sett hana á dagskrá hér í þingsal, en við í Viðreisn sitjum hjá við afgreiðslu þessarar tillögu.