151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hefði, myndi, skyldi og allir vinir hans — ef þetta hefði verið í gær eða í fyrradag eða um áramótin. Staðreyndin er sú að staðan er að koma upp núna. Við erum hér núna og það er ekkert hægt, hvorki fyrir formann hv. atvinnuveganefndar né hvern annan sem er, að horfa fram hjá því. Í raun og veru hefði henni verið í lófa lagið að koma með þetta mál mun fyrr ef hún hefði vogað sér að sýna hæstv. sjávarútvegsráðherra hornin aðeins þar sem honum virðist vera nákvæmlega sama um smábátasjómenn. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum hér til að reyna að tryggja að þeir geti fengið þessa aumu 48 daga sem þeim er úthlutað ár hvert til þess að stunda strandveiðar. Það er nú ekki meira en það. Ég skora því á okkur öll hér, hvort sem fólk er í fýlu út af þessu eða hinu, að hætta þessum fífladansi, sem er okkur til ævarandi skammar, taka þetta út fyrir pólitískar raðir og rifrildi og einfaldlega tryggja, eins og við gerðum um laxeldið á sínum tíma, þegar allt var í voða fyrir vestan, að smábátasjómennirnir okkar geti a.m.k. fengið að veiða þessa 48 daga skammlaust. Það er í okkar valdi að svo megi verða.