151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð sem komið hafa fram um að þessi staða hefði ekki þurft að koma upp. Það er mál inni í atvinnuveganefnd um atvinnu- og byggðakvóta, 5,3% málið, þar sem strandveiðipotturinn er m.a. tekinn út úr, sem hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar stoppaði í nefndinni. Þetta er frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði fram og þar á meðal var tekið á strandveiðimálinu. Það hefði mátt bæta það mál í vinnu nefndarinnar og ná farsælli lúkningu með strandveiðar. Ég er talsmaður strandveiða og byggðafestu í landinu, en að koma með þetta mál núna á síðustu metrunum eru alveg óforbetranleg vinnubrögð. (Gripið fram í.) Ég og við í mínum flokki erum alveg til í að vinna inn í sumarið ef þingheimur greiðir atkvæði með þessu. Við höfum sýnt það á síðustu dögum að við erum alveg til í að vinna í einn mánuð í viðbót (Forseti hringir.) eða tvo mánuði í viðbót, landi okkar til hagsbóta.

(Forseti (SJS): Þingmenn fara nú ekki á strandveiðar meðan þeir eru á þingi.)