151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Forseti. Ég held að það hafi komið skýrt fram, af hálfu flutningsmanns þessarar dagskrártillögu, að hann gerir sér grein fyrir því að þetta mál mun ekki fara á dagskrá. Þetta er bara liður í því að gera upp einhverjar sakir við einhvern annan þingmann, formann atvinnuveganefndar. Tillagan sem slík er auðvitað bara sýndarmennska. Ég held að við hljótum öll að átta okkur á því að þetta er sýndarmennska, gerð í þeim eina tilgangi að reyna að stilla fólki upp við vegg í einhverju áróðursstríði utan þessara veggja. Það er ekkert einsdæmi, en það hjálpar ekki þegar við erum að reyna að ná samkomulagi um þinglok með skikkanlegum hætti. Það hjálpar ekki.