151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[11:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú klára rúmlega 100 manns á hverjum mánuði atvinnuleysisbótarétt sinn. Það þýðir að þau þurfa að leita á náðir sveitarfélaga og hjálparstofnana eftir aðstoð til að lifa. Samfylkingin hefur ítrekað lagt til að lengja þetta tímabil og gerir nú lokatilraun til að lengja það í sex mánuði. ASÍ hefur kallað eftir því og það hafa sveitarfélögin líka gert. Við leggjum einnig til að atvinnuleysisbætur hækki í 95% af lágmarkstekjutryggingunni, líkt og ASÍ hefur einnig kallað eftir. Áður en þingmenn gera upp hug sinn bið ég þá að svara því í huganum hvað samfélagið okkar græði á því að halda því fólki í sárafátækt sem hefur þurft að bera þyngstar byrðar í heimsfaraldri. Tillögur okkar í Samfylkingunni eru til að lágmarka skaðann sem langtímaatvinnuleysi veldur.