151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[11:07]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um mál sem hefur verið í vinnslu allt þetta kjörtímabil og að hefur komið fjöldi fólks, á annað þúsund manns, fulltrúar allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi, fulltrúar allra ráðuneyta sem koma að málefnum barna, fulltrúar sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka og fleiri, mál sem setur upp nýtt velferðarkerfi fyrir börn þvert á öll önnur kerfi, gríðarlega stór kerfisbreyting.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnslu málsins allt þetta kjörtímabil, fulltrúum allra þingflokka hér á Alþingi. Ég þakka sérstaklega framsögumanni málsins, hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, fyrir hafa borið málið upp á þinginu. Ég vænti þess að við getum áfram tryggt góða samvinnu í innleiðingu þessara laga og að þau verði til mikilla framfara fyrir börn og barnafjölskyldur á Íslandi.