151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir.

[12:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í sömu erindagjörðum og þær sem komu hingað upp á undan mér. Um leið vil ég lýsa yfir ákveðinni hryggð yfir því að búið sé að kippa dagskrá þingsins algerlega úr sambandi. Forseti þingsins, sem er í rauninni fulltrúi meirihlutaflokkanna hér á þingi, hefur gert það. Hvað þýðir það? Það þýðir að eftirlitshlutverk þingsins er skert gagnvart framkvæmdarvaldinu. Af hverju segi ég það? Jú, við höfum til að mynda ekki tækifæri til að ræða skýrslu um leghálsskimanir, ef hún á annað borð kemur, til að ræða þá miklu óvissu sem ákvörðun heilbrigðisráðherra hefur haft í för með sér fyrir þúsundir kvenna í landinu. Við getum ekki rætt um skýrslu sjávarútvegsráðherra, hún er reyndar ekki komin og við erum enn að bíða, um eignarhald stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna í atvinnulífi landsins. Við getum ekki fylgt eftir mjög brýnum málum í þinginu gagnvart ráðherra og ríkisstjórn af því að búið er að kippa úr sambandi (Forseti hringir.) venjulegri og hefðbundinni dagskrá þingsins þannig að óundirbúnar fyrirspurnir, (Forseti hringir.) umræða um skýrslur, umræða um ýmis málefni kemst ekki að. (Forseti hringir.) Mér finnst það miður og í það minnsta mikið áhyggjuefni, sérstaklega þegar það liggur ljóst fyrir hversu lengi við verðum.