151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[14:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir kynningu og yfirferð á nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun, þ.e. flutning póstmála. Eins og fram kom hjá framsögumanni þá var um þetta góð sátt í nefndinni þó að einhverjir séu með fyrirvara og þar á meðal sá sem hér stendur. Mun ég leitast við í stuttri ræðu að gera grein fyrir þeim vara sem ég hef á varðandi þetta, en hann helgast af hagsmunum landsbyggðarinnar.

Með frumvarpinu er verið að gera þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, eins og fram kom hjá framsögumanni. Póstmál eru vitaskuld ekki hrein byggðamál. Póstþjónustan og eftirlit með henni snýst ekki bara um fyrirkomulag við dreifingu pósts um strjálar byggðir heldur um landið allt og aðstæður eru vægast sagt óskaplega breytilegar. Við getum talað um litrófið, svart og hvítt. Þær eru öfganna á milli. Ýmsum er tamt í þessu samhengi og öðru að tala um samkeppnisumhverfi og heilbrigða viðskiptahætti. Undir það leyfi ég mér að taka fullum fetum og halda á lofti. En það er brýnt að mínu mati að nálgast umræðuna um samkeppnissjónarmið og markaðsvæðingu þegar um póstþjónustu er að ræða af sanngirni og tilhlýðilegri tillitssemi og varúð. Um álitamál getur verið að ræða í einhverju samhengi. Mín skoðun er sú að við eigum að hafa í heiðri heildarhagsmuni, sanngirni og samfélagslega ábyrgðarkennd og heilbrigða skynsemi. Við megum ekki hunsa hlutskipti landsbyggðanna eins og sérstaða þeirra sé ekki veruleiki fjölmargra. Það er ólíkt hlutskipti að búa á Drangsnesi eða á Akranesi þegar kemur að margvíslegri opinberri þjónustu og viðskiptum. Svo má líka benda á það og hafa ríkulega í huga í frjálsræðisumræðunni að samkeppni í dreifingu bréfa hefur ekki náð að myndast hér á landi svo neinu nemi þótt ekkert sé því raunverulega til hindrunar. Það sama er uppi á teningnum almennt í öðrum löndum innan EES.

Herra forseti. Póstþjónustan stendur á aldagömlum merg og í hugum margra okkar er örugg og áreiðanleg póstþjónusta jafn sjálfsögð og rennandi vatn, rafmagn eða sími. Það er samgróið okkar menningu, venjum og hefðum að geta treyst á að póstþjónustan sé áreiðanleg og hún hefur staðið undir nafni. Þetta er gamalt fyrirbæri. Fyrsta póstferðin á Íslandi var farin snemma árs 1782 en reglubundnar póstferðir hófust svo skömmu síðar, eða 1785. Síðan hefur tíminn liðið. Fyrsta pósthúsið var stofnað í Reykjavík og opnað árið 1873, sama ár og fyrsta frímerkið var gefið út. Póstþjónustan gegndi náttúrlega því hlutverki að koma bréfum á milli svæða, bera boð, senda skjöl og annað ritmál frá einum stað til annars. Póstur var og er enn leið til að koma tjáningu á framfæri og stuðla að samskiptum og efla og viðhalda lýðræðishugmyndafræðinni og lýðræðislegum samskiptum og hefðum. Svo er á allra síðustu árum í vaxandi mæli kominn til hinn viðskiptalegi þáttur.

Óhætt er að segja að póstþjónusta standi víða á tímamótum, það er sama hvert litið er í nágrenni okkar. Ný tækni og breytingar í samskiptum og lífsháttum fólks hafa veruleg áhrif á rekstur þjónustunnar. Frammi fyrir þessu stöndum við á Íslandi, sem endurspeglast, má segja, í rekstrarhruni Íslandspósts vegna samdráttar í bréfasendingum. Það liggur fyrir að meginhluti starfsemi innan alþjónustu er að færast úr því að vera á dreifingu á bréfum yfir í dreifingu á pökkum og má auðvitað í því sambandi nefna höfuðborgarsvæðið. Það er lykilsvæði í póstdreifingu. Umfangið er mikið og fjarlægðir litlar. Í þessu samhengi er höfuðborginni gjarnan stillt upp gagnvart öðrum svæðum á landinu sem standa kannski höllum fæti hvað þetta varðar.

Herra forseti. Einkarekin flutningafyrirtæki hafa um árabil veitt Íslandspósti samkeppni í flutningum og þau fyrirtæki meta það svo að verið sé að grafa undan rekstri þeirra og að svo verði áfram, verði því ekki breytt. Þessi fyrirtæki hafa um árabil haldið úti pakkaflutningum úti um landið án ríkisstyrkja og fullyrða að þjónusta hins ríkisrekna póstfyrirtækis sé undirverðlögð á landsbyggðinni og yfirverðlögð á höfuðborgarsvæðinu og að fyrirtæki leitist þannig við að ná jöfnuði í rekstri sínum. Þetta er baráttumál á markaði og í samkeppni. Flutningafyrirtækin segja að í þessu felist brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi aðstöðu. Viðmið alþjónustu er sem sé það að sama verð gildi um allt land en á í orði kveðnu líka að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna. Álitamálin vakna hins vegar hvað varðar eðlilega og réttmæta viðskiptahætti á markaði þannig að framkvæmdin standist samkeppnislög. Um þessi atriði hefur Samkeppniseftirlitið ekki kveðið upp neinn úrskurð en metur það svo að finna þurfi aðrar og betri leiðir til að tryggja hagstæða verðlagningu á póstþjónustu í dreifðum byggðum. Það nefnir í því sambandi vel útfærða flutningsjöfnun. Í svipaðan streng tekur svo sem Póst- og fjarskiptastofnun í umsögn sinni til umhverfis- og samgöngunefndar.

Herra forseti. Tilgangur alþjónustu, sem málið snýst um að verulegu leyti og lýtur ekki síst að byggðasjónarmiði, er sá að íbúar alls landsins eigi rétt á ákveðinni lágmarkspóstþjónustu sem uppfylli gæðakröfur og sé á viðráðanlegu verði. Þetta er hinn samfélagslegi útgangspunktur, að við lifum saman í þessu eina landi, í þessu samfélagi sem lýtur einum lögum, þetta sé eitt hagkerfi og að þjónustan eigi að vera okkur aðgengileg á sömu kjörum hringinn í kringum landið og að jöfnuður skuli ríkja meðal íbúanna eins og frekast er kostur. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað ítarlega um þetta frumvarp og áréttar í nefndaráliti, eins og fram kom hjá framsögumanni, að bæta þurfi grundvöll fyrir heilbrigða samkeppni á póstmarkaði ásamt því að tryggja aðgengi landsmanna að póstþjónustu óháð búsetu. Það er, eins og fram kemur með undirritun og samþykkt nefndarálitsins, sátt um málefnið. Hún er tvíþætt. Það er sátt um Fjarskiptastofuþáttinn og flutninginn yfir til Byggðastofnunar þótt einhverjir kunni að setja spurningarmerki við það. En fyrirvari minn við efni frumvarpsins felst fyrst og fremst í því að ég tel að hagsmunir landsbyggðarinnar séu alls ekki tryggðir við lagabreytinguna og jafnvel fyrir borð bornir.

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí næstkomandi. Eftir það taka við óvissutímar í þjónustulegu- og kostnaðarlegu tilliti. Engar jöfnunaraðgerðir liggja fyrir núna þegar lögin eru samþykkt. Í nefndaráliti er lagt til að ráðherra skipi starfshóp sem hugi að aðgerðum sem tryggi að markmið póstlaganna frá 2019 náist og lagt er til að starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. október. Það ríkir hins vegar alger óvissa um skipan hans, áform og hverjar tillögur þessa starfshóps verða. Að vísu er gert ráð fyrir að alþjónustuþáttur laganna taki gildi síðar á þessu hausti en það er bara tímaspursmál. En ekki er búið að binda hnútana þarna. Ef ekkert verður aðhafst er ljóst að póstkostnaður við pakkasendingar á landsbyggðinni mun stórhækka.

Eins og við vitum reiðir landsbyggðin sig á vefverslun í æ ríkari mæli eftir því sem hefðbundin verslun á erfiðara uppdráttar í dreifðum byggðum. Það má heldur ekki gleyma því að þetta er ekki einstefna, leiðirnar liggja í báðar áttir, vegir liggja í allar áttir. Á landsbyggðinni eru þegar staðsettar vefverslanir sem blómstra á sína vísu og eiga ríka möguleika til að dafna að gefnum forsendum. Ef ekki koma til jöfnunaraðgerðir í þessu efni er enn verið að auka við og enn verið að undirstrika misvægi milli landsbyggðar og þéttbýlisins sunnan lands og það er ekki hægt að sætta sig við. Það er óásættanlegt, herra forseti. Það þarf að tryggja að jöfnunaraðgerðir ráðist ekki af pólitískum áherslum frá einu tímabili til annars, einu ári til annars, og á því er ekkert tekið í þessu frumvarpi. Í fjáraukalögum var heldur ekki tekið á þessum þætti því að þetta fer að bíta strax á þessu ári og það er verr. Ég vona að samgönguráðherra og fjarskiptaráðherra hafi einhver ráð í hendi sér til að bregðast við þegar á þessu ári.

Herra forseti. Póstþjónusta gegnir enn mikilvægu hlutverki. Við lítum á þetta sem rótgróna samfélagslega þjónustu sem standa eigi vörð um, ekki síst fyrir almennt atvinnulíf og í lykilhlutverki í þessu tilliti er vefverslun.

Regluverk EES, það sem fram kemur í EES-samningnum á sviði póstmála, sem gjarnan er vísað til, veitir aðildarríkjunum raunar eitthvert svigrúm til að hnika til þeirri meginreglu að póstrekstur sé viðskiptalegt fyrirbæri og eigi almennt að lúta samkeppnisákvæðum og markaðslögmálum. Það svigrúm takmarkast hins vegar við samfélagslega hagsmuni sem snerta t.d. tjáningar- og skoðanafrelsi, bréfasendingar, sendingar fréttamiðla eða bóka sem hafa þann tilgang að auka aðgang að menningarefni og auka möguleika til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Staðreyndin er, eins og við þekkjum hér á landi og víða um lönd, að póstmagn minnkar og pökkum fjölgar. Yfirbragð verslunar og viðskipta er því umtalsvert. Á því er engin launung. Það er því engin goðgá að rétt sé að leggja áherslu á að fljótlega verði lagst í að endurmeta og endurskoða bæði löggjöf um póstinn og löggjöf um vöruflutninga með þeim ásetningi að finna hagkvæmar leiðir til dreifingar á vörum og pökkum um land allt. Taka þarf fullt tillit til byggðasjónarmiða og þeirrar staðreyndar sem augljós er, að á sumum svæðum á sjálfbær þjónusta á þessu sviði sífellt erfiðara uppdráttar, á undir högg að sækja.

Herra forseti. Þetta er auðvitað ekki einfalt mál. Hér þarf að hafa í huga pólitíska, lagalega, viðskiptalega og samfélagslega þætti allt í senn.

Að lokum vil ég leyfa mér að þakka samnefndarmönnum mínum fyrir ágæta vinnu við þetta nefndarálit og við að fullvinna þetta frumvarp. Sérstaklega færi ég þakkir til hv. þingkonu Líneikar Önnu Sævarsdóttur því að hún stóð fyrir stafni og stýrði þessu af festu.