151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa andsvar mitt á íslensku. Mér líst nokkuð vel á þetta frumvarp, enda er verið að gera þokkalega eðlilegar lagfæringar á ástandinu með því að í rauninnni slíta í sundur Póst- og fjarskiptastofnun og færa til. Það er alla vega í rétta átt. En það hefur lengi loðað við póstþjónustu á Íslandi að kostnaður hefur verið hár, áreiðanleiki hefur verið merkilega lítill víðast hvar og þá sérstaklega varðandi pakkaflutninga. Flækjustigið er stundum mjög hátt fyrir fólk; það þarf að senda tölvupósta fram og til baka, jafnvel í marga daga, til að geta fengið pakkana sína afhenta. Þegar maður skoðar ástæðuna fyrir því þá eru auðvitað ákveðin einkavæðingaráform búin að vera í gangi mjög lengi. Það er búið að gera marga hluti til að draga markvisst úr getu Póstsins til að sinna sínu hlutverki. Tollkerfið okkar hjálpar ekki beint til, mikill kostnaður er fyrir neytendur og auðvitað einfaldar það ekki málin að við stöndum utan virðisaukaskattsbandalags við helstu viðskiptaþjóðir okkar þannig að það bætist virðisaukaskattur ofan á langflestar póstsendingar. Aðstæður eru almennt frekar íþyngjandi sem gera flutninga milli landa mjög flókna.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að ég hef ekki getað fylgst með framgangi málsins og hef ekki fengið jafn djúpa tilfinningu fyrir málinu og hv. þingmaður, sem er jú formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hvort hann geti sagt eitthvað til þess að fullvissa mig um að þetta muni ekki leiða af sér hærri kostnað, minni áreiðanleika eða meira flækjustig fyrir neytendur, heldur einmitt að þetta muni draga úr því. Þó svo að mér finnist breytingarnar á regluverksumhverfinu benda til þess að þetta verði betra þá er ég ekki alveg viss um að þetta verði endilega betra fyrir neytendur.