151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

625. mál
[16:53]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég vildi bara halda stutta ræðu til að fara aðeins yfir þau mál sem voru til umfjöllunar í andsvörum rétt í þessu. Það er skemmst frá því að segja að ég er hlynntur þessu máli. Ég held að það geti verið jákvætt framfaraskref að íbúar landsins, og aðrir sem hafa lögmætar ástæður til að eiga í samskiptum við íslensk stjórnvöld, hafi einhvern miðlægan, samþættan stað til að hafa þau samskipti og að stofnanir ríkisins og aðrir sem hafa góða ástæðu til að geta átt samskipti við borgara í gegnum þau tæki geti sameinast um einn vettvang. Það einfaldar alla hluti, dregur úr kostnaði og býður líka upp á ýmiss konar sveigjanleika og gagnsemi. Umfangið á því á samt eftir að koma í ljós vegna þess að við erum ekki lengur að tala um þennan klassíska heim þar sem send eru lettersbréf milli manna á gamla mátann og svoleiðis, heldur er fullkomlega mögulegt að nýta þetta í mun gagnvirkari tilgangi heldur en hefur verið tilfellið og allt gott um það að segja.

Það sem mig langaði til að fjalla um eru öryggisatriðin. Það er hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni, sem talaði hér áðan, að það er ákveðin hætta á því að fólk vilji safna upplýsingum, nýta upplýsingar á ótal vegu. Þegar búnir eru til samþættir gagnagrunnar eins og svona póstgagnagrunnur væri þá verður alltaf til ákveðinn hvati fyrir fólk til að brjótast inn í kerfið eða misnota kerfið á einhvern hátt. Þá verður líka til hvati til að reyna að slá kerfið niður þannig að það sé óaðgengilegt og það er líka alls konar hætta á því að gögn hreinlega leki úr svona kerfum. Til að koma til móts við það — það er ekki beinlínis farið ofan í tækniatriðin í nefndarálitinu enda kannski óþarfa nákvæmni, en ég vil bara það að komi fram í þessari umræðu að það er mjög mikilvægt þegar þessi kerfi eru hönnuð, eða þetta kerfi er hannað og sett upp í frambúðarform, að notuð séu nútímadreifilykladulmálssvæði til að vernda samskipti fyrir hvern og einn borgara. Það á ekki að vera stórkostlega erfitt. Það er í rauninni mögulegt nú þegar vegna þess að við erum með þessa auðkennislykla sem eru komnir í síma flestra landsmanna.

En það er atriði í nefndarálitinu sem mér fannst mikilvægt að kæmi þar fram, sem er að þrátt fyrir að auðkenniskerfið sem flestir Íslendingar nota sé stórkostlegt og æðislegt og eiginlega bara með því besta sem ég hef séð — ég hélt meira að segja örstutt erindi um auðkennislyklakerfið okkar á fjarráðstefnu á Indlandi um kosningafræði fyrir nokkrum vikum, svo hrifinn er ég af þessu kerfi — þá hefur það þann litla ókost að það er sem stendur í eigu einkafyrirtækis, sem er ekki endilega slæmt í sjálfu sér, en ríkið er ekki með neitt kerfi sem er sambærilegt, bæði í gæðum og öryggisvottun, sem þýðir að þeir Íslendingar sem vilja ekki að einkafyrirtæki hafi í rauninni tögl og hagldir um þeirra aðgengis- og auðkennisatriði geta erfiðlega nýtt sér þetta þjónustustig. Því kemur fram í nefndarálitinu að það er í rauninni lagt til, ég er svo sem ekki búinn að merkja við það, ég finn þetta ekki, að tryggt verði að ekki verði gerð krafa um að fólk noti þetta rafræna kerfi fyrr en búið er að koma hlutunum þannig fyrir að allir Íslendingar geti notað þetta, og þá alveg óháð því hvar þeir eru í heiminum. Ég vil líka hugsa um það þannig að þetta sé um að allir Íslendingar vilji nota það, að það hafi enginn í rauninni neina lögmæta ástæðu til þess að vilja ekki nota það. Væntanleg kaup ríkisins á Auðkenni sem hefur verið talað um eru auðvitað í liður í því að uppræta alla vega einhverjar af mótbárunum. En eins og ég segi, auðkenniskerfið er alveg stórkostlegt og ég geri ráð fyrir því að það verði ákveðinn hornsteinn í samskiptum ríkisins við borgarana í framtíðinni og er nú þegar orðið þannig.

Stutta útgáfan er: Dulkóðum samskiptin við borgarana þannig að gagnalekar komi síður að sök. Það er ágætt að reyna að hanna þetta kerfi þannig að það sé óhult fyrir helstu árásum. Á landinu er til góð þekking í upplýsingaöryggismálum. Það er, sérstaklega í svona verkefni, gott að nota þá þekkingu til fulls. En ég ætla líka að taka undir aðrar athugasemdir, t.d. frá Blindrafélaginu; aðgengi verður að vera með besta móti í svona kerfi vegna þess að eins og tölvutækni er nú ágæt þá hefur hún því miður ákveðna tilhneigingu til þess að útiloka fólk ef ekki er rétt staðið að hlutunum. Í þessu höfum við alla getu, alla burði, til þess að tryggja bæði að samskiptin séu örugg, og í rauninni öruggari en nokkur samskipti hafa nokkurn tímann verið, en jafnframt að þau séu aðgengileg og þægileg og að þau bjóði upp á það allra besta sem nútímatækni hefur upp á að bjóða.