151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[20:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar vegna þessa máls sem varðar fullnustu refsinga. Þetta mál var, eins og getið er um í nefndaráliti, sent til umsagnar og við fengum gesti á fundi nefndarinnar. Efnisatriði málsins eru fyrst og fremst á þá leið að þar eru lagðar til tímabundnar breytingar á lögum um fullnustu refsinga sem lúta að reynslulausn og heimild til fullnustu með samfélagsþjónustu. Þar er um að ræða útvíkkun sem gerð er til þess að unnt verði að stytta biðlista eftir fullnustu refsinga.

Þess er getið í nefndarálitinu að við meðferð málsins hafi komið fram sjónarmið um að tilefni væri til að gera ákvæðin varanleg. Meiri hlutinn áréttar að markmið frumvarpsins sé að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga eins og málin horfa núna og getur meiri hlutinn þess að æskilegt sé að fylgst verði með hvort frumvarpið hafi tilætluð áhrif áður en ákvæðin verða fest varanlega í sessi. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að á gildistíma laganna verði tekið til skoðunar hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu skuli vera stjórnvaldsákvörðun eða hvort fela eigi dómstólum þá ákvörðun.

Þetta er mál sem oft hefur komið upp í umræðu á undanförnum árum, hvort það eigi að vera stjórnvalda að ákveða hvort heimilað sé að fullnusta refsingu með samfélagsþjónustu. Við gerum ekki tillögu um breytingar í þeim efnum í sambandi við afgreiðslu þessa máls en áréttum í nefndarálitinu að mikilvægt sé að sú umræða eigi sér stað og að það verði skoðað til frambúðar.

Meiri hlutinn bendir einnig á í nefndarálitinu að í greinargerð komi fram að heimildunum í 1. gr. frumvarpsins sé ætlað að ná til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laganna og þegar eru komnir til fullnustu Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024. Meiri hlutinn telur æskilegt að slík lagaskil komi fram í bráðabirgðaákvæðunum sem um ræðir og leggur til breytingar þess efnis.

Að auki leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Í þessu máli er rétt að hafa í huga að hér er um heimildarákvæði að ræða en ekki skyldu eða réttindi þannig að það verður áfram mat sem ræður því hvort heimilað verður að beita þeim úrræðum sem frumvarpið felur í sér. Telur meiri hlutinn að í því felist það öryggi að það verði metið út frá þeim einstaklingum sem sækja um samfélagsþjónustu eða reynslulausn fyrr en ella hvort þeir teljist uppfylla skilyrði til að fá slíka málsmeðferð.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsögu lengri en get þess að undir nefndarálit þetta skrifa eftirfarandi nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd: Sá sem hér stendur, Páll Magnússon formaður, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.