151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[23:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þetta er ein umfangsmesta breytingartillaga sem við höfum séð á frumvarpi þar sem aðferðafræðinni sem er beitt þegar sveitarfélög uppfylla ekki lágmarksíbúafjölda var kollvarpað frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. En ég held að þessi aðferð sé til bóta. Ég tek undir með þeim sem hafa lýst ánægju með þá vinnu sem framsögumaður málsins vann í samráði við bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og samband smærri sveitarfélaga, eða hvað það kallar sig aftur, og kannski ágætt að við höfum líka í huga að þessar tölur eru náttúrlega mjög ófullkominn mælikvarði. Íbúafjöldi segir ekki endilega alla söguna varðandi getu sveitarfélags til að sinna þeim verkefnum sem íbúarnir ætlast til að sinnt sé eða getu til að tryggja réttindi íbúa sveitarfélagsins. Hér er línan dregin við 1.000 íbúa sem er bara ákvörðun sem er tekin og gæti allt eins verið 100 eða 2.000 eða 5.000, allt eftir aðstæðum í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Það sem er kannski skemmtilegast við þessa lendingu sem birtist í breytingartillögunni, fyrir utan náttúrlega að þetta er töluvert mýkri aðferð gagnvart sveitarfélögunum heldur en sú harða lögþvingun sem var í fyrri útgáfu af frumvarpinu, er að hér er þess krafist að ef sveitarfélög vilja víkja frá meginsjónarmiði laganna um að sveitarfélag sé af ákveðinni stærð til að geta tryggt getu þeirra til að annast lögbundin verkefni þurfi hún að undirbyggja þá afstöðu sína með faglegum og góðum rökum með því að láta vinna álit þar sem er fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti og ýmislegt annað. Þegar sveitarstjórn hefur síðan tekið þetta álit til umræðu og ef hún ákveður í framhaldinu að ganga ekki til sameiningarviðræðna við nágrannasveitarfélög þá er möguleiki fyrir íbúa að krefjast íbúakosningar um þá ákvörðun. Það sem er gert í þessari breytingartillögu er að þröskuldurinn sem íbúar þurfa að komast yfir til að fá þá kosningu fram er nokkuð lágur. Það þarf ekki nema 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu til að knýja slíka atkvæðagreiðslu fram.

Þetta, herra forseti, endurspeglar að mínu mati aftur það sjónarmið að þegar sveitarfélag rökstyður sig frá meginmarkmiði laganna þá þurfi ansi sterk rök hjá sveitarstjórninni til að taka þá ákvörðun. Á móti verði almenningur í sveitarfélaginu, íbúarnir sem þessi ákvörðun snertir, að eiga nokkuð auðvelt með að geta hnekkt þeirri ákvörðun ef þeir eru henni ósammála. Þannig að tekið saman þá held ég að þessi vinna í umhverfis- og samgöngunefnd hafi skilað talsvert betra frumvarpi en til nefndarinnar kom og ég þakka aftur hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þá vinnu sem hún lagði í þetta.