151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[00:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Í viðvarandi tilraunum mínum til að greiða fyrir þingstörfum ætla ég að halda tiltölulega stutta ræðu um þetta mál sem þó kallar á mikla umræðu og hefði verið betra að við hefðum rætt þetta meira fyrr á kjörtímabilinu. Hér er verið að leggja til markmið og ekki bara markmið heldur þá sérkennilegu leið að lögbinda markmið — það hlýtur að vera í fyrsta skipti sem það er gert og hefur svo sem ekki verið skýrt hvernig það á að geta gengið upp svona stjórnskipunar- og lagalega séð — sem er ekki til þess fallið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu heldur þvert á móti.

Vandi þessa málaflokks, þessa mikilvæga málaflokks, er sá að umræða um hann helgast allt of mikið af sýndarmennsku og það á við í þessu máli. Oft birtist sú sýndarmennska í því að litið er á mjög afmarkaðan hluta málsins. Í umræðum um þessi mál hér á Íslandi er t.d. iðulega talað um mjög afmörkuð áhrif frekar en heildaráhrifin fyrir heiminn. En hvernig á að vera hægt að nálgast loftslagsmálin öðruvísi en að líta á þau sem heimsvandamál? Það er ekki gert hér. Í stað þess er lagt fram frumvarp sem byggist á áætlun sem gerir ráð fyrir að sú einstaka staða sem Ísland hefur náð í framleiðslu umhverfisvænna orkugjafa nýtist heiminum síður til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta mun hafa í för með sér mjög verulegar og neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland. Þær munu ekki hvað síst bitna á þeim tekjulægri í samfélaginu.

Nálgunin sem hér er talað út frá snýst um að auka gjaldtöku. Menn hafa svo sem verið tiltölulega afdráttarlausir með það og sýnt það í verki með nýjum og hækkandi grænum sköttum. Það birtist líka í minni neyslu, að við þurfum að draga úr neyslu, en það mætti einnig orða það þannig að við þurfum minni lífsgæði og að það þurfi minni framleiðslu, á Íslandi vel að merkja. En hvergi í heiminum, a.m.k. eru fá dæmi um það, fer framleiðsla fram með eins umhverfisvænum hætti og hér. Þess vegna er það gott fyrir loftslagið, gott fyrir heiminn, að sem mest sé framleitt á Íslandi. En í stað þess að nýta kosti Íslands sem þess umhverfisvæna lands sem það er orðið í þágu heimsmarkmiða er ríkisstjórnin hér að leitast við að lögleiða tilraun til að toppa flestar eða allar aðrar ríkisstjórnir heims í markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan landsins — innan landsins, herra forseti.

Í Bretlandi hefur verið átak í gangi um langt skeið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þarf ekki að hafa mörg orð um það að Ísland stendur að sjálfsögðu mun framar Bretlandi hvað varðar árangur á því sviði. Þegar menn fóru á síðasta ári að skoða heildarmyndina og bókhaldið kom í ljós, eftir þær miklu yfirlýsingar sem höfðu verið gefnar um hversu mikið hefði dregið úr losun frá þessu títtnefnda viðmiðunarári 1990, að sá árangur hafði fyrst og fremst náðst með því að framleiðslan hafði flust annað. Framleiðslan hafði fyrst og fremst flust til Kína þar sem kolabruni vex gríðarlega ár frá ári til að standa undir framleiðslunni sem svo er siglt með á svartolíubrennandi skipum til Bretlands og annarra vestrænna ríkja. Losunin í breska samfélaginu, í Bretlandi sem slíku, hafði því minnkað sáralítið þrátt fyrir að gríðarlegu fjármagni hefði verið varið í það verkefni og framleiðsla í mjög miklum mæli verið flutt úr landi.

Og hvernig ætla íslensk stjórnvöld að ná þessu markmiði, um kolefnishlutleysi 2040, þegar aðrar þjóðir, eins og Bretar, stefna á 2050 og bent er á, meira að segja af eigin embættismönnum — af fjármálaráðherra landsins, sem þó studdi áformin — að kostnaðurinn við það að ná kolefnishlutleysi, kostnaðurinn fyrir samfélagið, fyrir árið 2050 verði gríðarlegur. Ráðherrann sjálfur sem þó studdi málið taldi að kostnaðurinn samkvæmt útreikningum breska fjármálaráðuneytisins myndi nema um 1.000 milljörðum punda eða 170.000 milljörðum kr. Síðan þá hefur verið bent á að sú áætlun sé líklega mjög vanmetin. En Ísland ætlar að ná þessum áfanga fyrir árið 2040.

Vandinn er bara sá að svigrúm Íslands er miklu minna en flestallra annarra landa vegna þess árangurs sem við höfum náð nú þegar. Önnur lönd geta fært sig úr því að framleiða orku með kolabruna yfir í gas eða endurnýjanlega orkugjafa en Ísland framleiðir nú þegar nánast alla sína orku með endurnýjanlegum orkugjöfum og er þar fyrir utan einstaklega umhverfisvænt land. Það er því ekki hægt að ná markmiðinu hér nema með því að draga verulega úr lífsgæðum, neyslu, og draga úr framleiðslu, draga saman hagkerfið. Það verður dýrt. Það verður sérstaklega dýrt fyrir tekjulægri hópa samfélagsins sem nú þegar þurfa að greiða hlutfallslega miklu meira fyrir þessi áform en þeir tekjuhærri.

Og þetta er líka skaðlegt fyrir loftslagið. Þetta er skaðlegt í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda. Því meira sem er framleitt hér, því betra fyrir loftslagið. Ef eitt álver eða tvö eða þrjú, skiptir ekki máli hversu mörg, yrðu flutt frá Íslandi til Kína myndi losunin tífaldast og hér er lagt upp með það að draga úr neyslu og framleiðslu á Íslandi, draga saman íslenska umhverfisvæna hagkerfið, og færa þessa framleiðslu fyrir vikið annað þar sem losunin getur verið margfalt meiri. Við leysum ekki þennan vanda nema með ræktun landsins og með tækniframförum. Nú þegar höfum við séð árangur á því sviði og höfum væntingar um enn meiri árangur. En það er háð því að öll áherslan, allur krafturinn, og allt fjármagnið renni ekki í aðgerðir sem leiða til öfugrar niðurstöðu, renni ekki inn í einhverja svikamyllu um viðskipti með aflátsbréf í loftslagsmálum, heldur sé beint að lausnum sem virka, að tækniframförum, að ræktun lands og auðvitað að því að nýta kosti Íslands og framleiða sem mest hér með umhverfisvænum orkugjöfum.

Þetta mál er því miklu stærra á mörgum sviðum sem hafa fengið litla athygli í umræðunni en menn gera sér grein fyrir. Þetta er gríðarlega stórt mál í samhengi við efnahagslega framþróun Íslands. Þetta er gríðarlega stórt mál hvað varðar möguleika fólks á að aflar sér tekna og bæta lífskjör sín og þetta er stórt mál hvað varðar umhverfið en á allt annan og í raun á þveröfugan hátt en þann sem stillt er upp af flutningsmönnum málsins og birtist í stefnu ríkisstjórnar. Loftslagsmálin og umhverfismálin í heild eru það stórt viðfangsefni að menn verða að nálgast það út frá staðreyndum, út frá rökum, ekki einhverri ímyndarpólitík og sýndarmennsku, og grípa til þeirra ráðstafana sem virka, sem skila árangri. Þar getum við Íslendingar svo sannarlega látið gott af okkur leiða með því að rækta landið, með því að styðja við framþróun tækninnar og með því að framleiða meira en ekki minna á Íslandi.