151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og mjög góða yfirferð á þessu máli sem er á margan hátt ágætismál. Eins og kom reyndar fram áðan hjá hv. þingmanni þá skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara og ég mun fara stuttlega yfir það hér á eftir í ræðu. Það sem ég vildi aðeins koma inn á við hv. þingmann er gildissvið laganna sem fjallað er um á bls. 3 í frumvarpinu, þ. e. að lögin gildi ekki um — og hv. þingmaður fór mjög vel yfir það — fasteignaréttindi, þ.e. vatnsréttindi, jarðhitaréttindi, vindorku, námuréttindi og lax- og silungsveiðiréttindi.

Þá kemur einnig fram að lögin gildi ekki um nýtingu lands sem er í nánum tengslum við nýtingu þessara réttinda, og mig langaði að vita hvort hv. þingmaður gæti skýrt það aðeins betur út. Hvað eru náin tengsl í þessu? Ég rakst ekki á það í frumvarpinu sem fékk mjög góða yfirferð í nefndinni og ég þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórssyni, fyrir að hafa farið mjög vel yfir þetta mál. Fjöldi gesta kom fyrir nefndina, umsagnir bárust og annað slíkt þannig að það er ekkert út á það að setja, bara góð vinnubrögð. En þetta finnst mér vera óskýrt. Þetta getur boðið upp á einhverjar mismunandi túlkanir. Ef hv. þingmaður hefur einhverjar hugmyndir um þetta, hvað sé átt við þarna, væri gott að fá það fram hér.