151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:39]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þessa spurningu og það er rétt, við ræddum þó nokkuð gildissviðið út frá nokkrum atriðum, aðallega vegna þessa misræmis. Í undirbúningi frumvarpsins var ákveðið að meitla það í stein um hvað frumvarpið gilti ekki og upp kom einhvers konar misræmi á milli greinargerðarinnar sem eftir sat um að nýta mætti slíkar auðlindir í framtíðinni. Það var tekinn af allur vafi og nefndin lagði sig fram um að taka af þann vafa sem gæti mögulega skapast á milli frumvarpstextans og greinargerðarinnar.

Ég held að það megi nú kannski ekki gera of mikið úr orðalaginu „í nánum tengslum við“. Ég hygg að það sé kannski til áréttingar þess ef um er að ræða einhverjar slíkar auðlindir sem tengjast landi sem á að nýta eins og lagt er til í frumvarpinu. Þannig skil ég textann. Ég þakka hv. þingmanni hins vegar fyrir mjög góða ábendingu. Stundum er maður bara að lesa orðin og leggur ekki meira í þau en þau segja.