151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:43]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og það er rétt að Húnavatnshreppur kom með mjög ítarlega og gagnlega umsögn og við tókum tillit til þessa atriðis og gerðum tillögu að breytingu sem kemur fram í þeirri umsögn, og ég fór yfir það áðan. En varðandi samráðið þá fyrst þetta: Ég held að maður eigi bara að hafa það viðhorf almennt að ef einhver telur að skort hafi á samráð þá er skortur á samráði. Það er þeirra mat og þá eigum við að leggja okkur fram um að gera betur.

Varðandi þjóðlendurnar þá skil ég áhyggjurnar en það er hins vegar alveg á hreinu, og við reyndum að ná utan um það í okkar áliti, að þær sérreglur sem koma fram í þjóðlendulögunum halda gildi sínu sem sérlög. Ég veit ekki hvort orða megi það þannig að þau toppi þá þau almennu lög sem verið er að setja hér. Það er alveg skýrt og ef það er ósamrýmanlegt þessum almenna ramma sem er að finna í frumvarpinu þá snýr það kannski að samningagerðinni um nýtingu á landi í atvinnuskyni. Samkvæmt þeim upplýsingum, og ef maður les greinargerðina, þá er gætt að því í hvívetna að allt sem sett er fram í frumvarpinu rúmist innan núgildandi þjóðlendulaga. Það er hægt að orða það þannig. Við lestur umsagnar Húnavatnshrepps er mjög mikilvægt að glöggva sig á þessu. Ég held að nefndin hafi lagt sig fram um það.