151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Willum Þór Þórssyni, fyrir góða yfirferð í þessu máli og ágætisandsvör hér fyrr. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir nefndarálitið og þau álitaefni sem komu fram í vinnu nefndarinnar og ég leyfi mér að segja að málið hafi fengið mjög góða umfjöllun innan nefndarinnar. Ég skrifa undir nefndarálitið en þó með fyrirvara og ástæðan er fyrst og fremst það samráðsleysi sem ég rakti í andsvari og kemur m.a. fram í umsögn frá Húnavatnshreppi og Bláskógabyggð. Eg þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilið svar þar. Þegar við fáum svona athugasemdir þá eigum við að taka þær alvarlega og reyna að gera betur og ekkert að vera að draga úr því þegar menn segja að samráð hafi ekki verið nægilegt. Við verðum að læra af því.

Það var kannski eitt sem ég saknaði hér í svari hv. þingmanns. Ég spurði hann að því hvort frumvarpið fæli í sér þunglamalega og íþyngjandi stjórnsýslu og hefði verið gott að fá álit hans á því. Það er eitt af þessum álitaefnum sem Húnavatnshreppur kemur hér fram með. En á móti kemur, held ég, að það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að tekist hefur að koma því mjög skýrt á framfæri, t.d. varðandi þjóðlendusjónarmiðið, sem er nú eitt af stóru málunum í frumvarpinu og athugasemdir sem hafa borist, að tekin eru af öll tvímæli um að öll sérlög sem gilda þar ganga að sjálfsögðu framar þessum lögum. Ég held að ágætlega hafi tekist að skýra það vel út og að sjálfsögðu styð ég þetta markmið frumvarpsins sem er að stuðla að hagkvæmri nýtingu og sjálfbærni, og aðgengi og uppbyggingu innviða og atvinnulífs í landi í eigu ríkisins. Þar er einmitt rætt um jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og svo samkeppnissjónarmið. Ég held að tekist hafi ágætlega til hér og ég fagna því að náðst hafi samstaða um þetta.

Síðan er hér eitt álitaefni sem kom fram en það var á vegum þjóðgarðsins en komið hefur fram að frumvarpið gæti haft áhrif á möguleika þjóðgarðanna til að afla sér tekna og sett starfseminni ákveðnar skorður. Yfir þetta var farið og ég held að ágætlega hafi tekist að leiðrétta það.

Ég vil síðan lýsa ánægju minni með það að rætt er um að þetta hafi ekki áhrif á almannarétt einstaklinga til frjálsrar farar um land á grundvelli laga um náttúruvernd, að ekki sé verið að hrófla við almannarétti einstaklinga til frjálsrar farar um land. Það er gott að það sé tekið sérstaklega fram vegna þess að þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem margir hafa haft áhyggjur af. Síðan finnst mér mjög gott þar sem rætt er um að þetta sé ekki til þess fallið að koma í veg fyrir svona nýsköpun. Nú er náttúrlega þessi auglýsingaskylda — og ég man að ég spurði sérstaklega að þessu á fundi nefndarinnar — og ef einhver hefur ákveðna hugmynd um að nýta land í eigu ríkisins, t.d. til atvinnurekstrar varðandi ferðaþjónustu eða eitthvað þess háttar, er ekki verið að koma í veg fyrir að samið verði við viðkomandi um að hann fái að framkvæma sína hugmynd. Það þarf ekki að auglýsa það sérstaklega fyrr en þá á síðari stigum ef viðkomandi fær þá vitneskju um að auglýsa þurfi á síðari stigum notkun landsins, að hann geti þá þróað sína hugmynd sem er mjög mikilvægt. Ég held að þetta séu helstu atriðin sem ég vildi koma hér á framfæri.

Það eru fyrst og fremst þessir hnökrar á málinu sem ég hafði áhyggjur af, þ.e. samráðsþátturinn, samráðsleysisþátturinn, og það er að sjálfsögðu eðlilegt að tryggja ákveðið endurgjald fyrir nýtingu á landi í eigu ríkisins og svo að stuðla að þessari útvistun á þjónustu, eins og segir hér. Svo er auk þess afar mikilvægt, það er tekið skýrt fram, að frumvarpið komi hvorki í veg fyrir né takmarki afnotarétt í þjóðlendum. Það var kannski stóra áhyggjuefnið, fannst mér, hjá þeim sem sendu inn umsagnir og sérstaklega kemur það fram í umsögn Húnavatnshrepps og einnig í umsögn frá Bláskógabyggð.

Að þessu sögðu þá styð ég að sjálfsögðu þetta mál sem er að mörgu leyti gott og til bóta. Hér er verið að samræma þetta og sömu reglur gilda þannig að það er mjög mikilvægt. Ég vona að þetta mál verði þessum atvinnugreinum og þessum aðilum, sem óska eftir samningum við ríkisvaldið, til góðs og þetta komi til með að auka innspýtinguna þegar kemur að nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.