151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:53]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir gagnlegar ábendingar um það sem við eigum að gera. Þetta stoppar aldrei. Við eigum alltaf að vera að skoða hvað við erum að gera. Það var eitt sem ég lét ósvarað, eða komst ekki yfir, en það var réttmæt ábending um að þetta gæti falið í sér þunga stjórnsýslu. Það er skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af því en þá verðum við aðeins að horfa á stöðuna eins og hún er í dag. Í dag er enginn rammi utan um það hvernig við stýrum aðgengi að dýrmætu landi, hvernig við nýtum það, hvernig við öflum tekna, hvað við erum að byggja upp og hvernig við ættum að byggja upp. Hér er gert ráð fyrir ferli og athugunum og málefnalegum ákvörðunum og jú, vissulega eru gerðar kröfur til þeirra sem sækja um slík leyfi eftir auglýsingum til að ná fram jafnræðinu og því öllu. Ég vil bara draga það fram hér að þetta speglast svolítið í þessum mismunandi samningum sem lagðir eru til. Til þess einmitt að forðast það eru gerðir nýtingarsamningar sem eru til þriggja ára þegar um er að ræða einhvers konar nýtingu sem felst kannski ekki í mjög dýrri uppbyggingu eða miklum mannvirkjum. Þeir eru umfangsminni og það form er sérstaklega til þess að gæta að því að samningsferlið verði ekki of íþyngjandi eða kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki sem sinna þjónustu á landi.