151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra þetta út. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að hér er náttúrlega verið að setja mjög mikilvægan ramma fyrir nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni og það var löngu tímabært. Þess vegna fagna ég frumvarpinu þó að hér hafi komið fram athugasemdir sem við eigum að taka alvarlega og leitast við að koma til móts við þau sjónarmið sem þar koma fram. Það var gert varðandi a.m.k. eina ábendingu, held ég, frá Húnavatnshreppi þegar kom að skýringum á hugtökum og það er af hinu góða. Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði og kom hér á framfæri. Við verðum að átta okkur á því að sveitarfélögin fara með ákveðið hlutverk þegar kemur að tengslum við veitingu leyfa og þess vegna er hér ágætisbreytingartillaga þegar kemur að þessari skilgreiningu sem er að finna á bls. 5, sem er gott mál til að taka af öll tvímæli um að sveitarfélögin geti fallið þarna undir þegar kemur að þessari umsýslu. Það var mjög góð ábending og gott að nefndin tók það upp því að það skiptir mjög miklu máli að þessir hlutir séu skýrir þegar kemur að þessum efnum og það sé ekkert sem geti (Forseti hringir.) valdið einhverjum vafa um hvernig eigi að fara með tiltekin réttindi.