151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[13:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það ríkir ófremdarástand í fangelsismálum hér á landi og ríkisstjórninni hefur tekist hið ómögulega sem er að skapa biðlista eftir úrræðum sem enginn hefur áhuga á að nýta. Dómar fyrnast með þeim afleiðingum að menn afplána ekki dæmdar refsingar. Tillagan er skiljanleg í því ljósi að reyna að höggva á boðunarlistann í fangelsi. Það er jákvætt og mikilvægt að beita samfélagsþjónustu, það er gott og skilvirkt úrræði sem ég styð. En það að við séum að fara með tveggja ára þunga dóma í samfélagsþjónustu án þess að löggjafinn ætli að hafa nokkra skoðun á því hvaða dómar falla þar undir er varhugaverð refsistefna og vond fangelsismálapólitík. Þetta er á skjön við þá meginreglu að það eru dómstólarnir í landinu sem dæma refsingar en ekki Fangelsismálastofnun, þó að ég beri fulla virðingu fyrir henni. Ég nefni í því sambandi að t.d. er algeng refsing fyrir nauðgun í okkar samfélagi tveggja ára fangelsi. Eru það dómar sem eiga erindi í samfélagsþjónustu? (Forseti hringir.) Ég set stórt spurningarmerki við það og sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu.