151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að við séum þó komin það langt að heildarendurskoðun á öllum lagaákvæðum um almennar kosningar í landinu sé nú að verða að veruleika. Með því er mætt athugasemdum og kvörtunum sem kosningaframkvæmd undangenginna ára hefur sætt frá okkar eigin landskjörstjórn, frá kjörbréfanefnd Alþingis, frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og fleiri aðilum. Það er löngu tímabært að fara í þessar umbætur. Ég fagna því alveg sérstaklega að nú á að fara að koma fram við fatlað fólk af fullri virðingu þegar kemur að hinum helga kosningarrétti. Ég nálgast það mál út frá því að mikilvægara sé að fötluðum sé sýnd full virðing og þeir njóti fortakslaust fullra mannréttinda þegar kemur að hinum helga kosningarrétti. Það er mér meira mál en vangaveltur um hugsanlega misnotkun.