151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[15:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil gera grein fyrir þessu. Ég veit að það er mjög erfitt að skilja, þegar breytingartillögur koma frá mér svona inn í þingið, hvað nákvæmlega er verið að kjósa um. Ég lofa að ég er ekki að lauma jöfnu vægi atkvæða þarna inn út af því að allir halda að þeir eigi að kjósa með breytingartillögu minni núna. En þetta er sem sagt breytingartillaga við breytingartillögu. Þetta er að upplagi til þess að tryggja þinglokasamninga. Miðflokkurinn fékk það í gegn að póstkosningarnar yrðu teknar út þannig að þetta er breytingartillaga við stóru breytingartillöguna og síðan kemur önnur breytingartillaga sem er þá jafnframt frá Miðflokknum. Þið vitið bara að þinglokasamningarnir hvíla á þessu en þetta varðar það að taka út póstkosningu og menn fylgja náttúrlega bara sannfæringu sinni með það en þó þannig að tryggt sé að þetta klárist hér á þinginu.