151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[15:23]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Forseti. Ég ætlaði að gera grein fyrir atkvæði mínu þegar greidd eru atkvæði um þessar greinar. Þær fjalla einmitt um það sem ég var að benda á. Ég kom með ábendingar við nokkrar greinar í lögunum sem ég byggi á reynslu minni við vinnu og störf við kosningar. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom hingað upp og vildi mála þessar ábendingar mínar í afskaplega óviðfelldnum litum og heyrðist mér klappliðið taka undir það. Hann var með óviðurkvæmilegar túlkanir á þessum málflutningi mínum. Það er ekkert undarlegt við það að hv. þingmaður noti hvert tækifæri til að skora svona óverðskuldað, sem lýsir best málstað hans. Mínar ábendingar gengu ekki út á neitt sem heitið getur að lagt sé til að skerða rétt nokkurs manns til að neyta atkvæðisréttar síns.