151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hvað köllum við frumvarp til laga um hálendisþjóðgarð á þessum tímapunkti? Ég veit það ekki, mér dettur í hug að kalla það frumvarp brostinna vona. Frumvarp loforða sem voru gefin en síðan ekki staðið við. Þetta er eitt af grunnatriðunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, eitt af stærstu atriðunum í náttúruvernd, í þeim stjórnarsáttmála, og ríkisstjórnin hafði ekki afl til að klára það, ekki vegna andstöðu í samfélaginu eða inni á þingi heldur vegna andstöðu í eigin röðum. Svo þykir mér þessi afgreiðsla á málinu eiginlega með miklum ólíkindum. Mál sem eru föst á milli stjórnarflokka og eru dauð eru yfirleitt bara látin deyja í nefnd. Þau eru ekki dubbuð upp með nefndaráliti með frávísunartillögu til að vísa til fráfarandi ríkisstjórnar til að deyja hér í þingsal fyrir allra augum. Mér þykir það ekki falleg leið til að svæfa þetta mál.

Brostnu vonirnar sem birtast í þessu máli sjást líka í því hvernig hefur farið fyrir stuðningi við hugmyndina um þjóðgarð á miðhálendi Íslands, þessari frábæru hugmynd um að friðlýsa einstakt svæði á heimsvísu í þágu náttúruverndar komandi kynslóða. Það er nefnilega þannig að fyrir fimm eða sex árum var 61% stuðningur við þetta mál eða 61% stuðningur við hugmyndina um hálendisþjóðgarð. Með því að leggja fram frumvarpið og kynna það um allt land og koma með það inn á þing náði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að draga stuðninginn niður í 43%. Það hefur verið vandræðagangur í þessu máli frá fyrsta degi vegna þess að það var ákveðið að þótt kveðið væri á um hálendisþjóðgarð með skýrum orðum í stjórnarsáttmála þá yrði þetta mál bundið saman við tvö önnur mál ríkisstjórnarinnar sem hið sama gilti ekki um, rammaáætlun og Þjóðgarðastofnun. Þar með var búið að ákveða að þetta mál myndi ráðast af pólitískum hrossakaupum á milli flokkanna frekar en innihaldi málsins, enda var útkoman sú að miðhálendisþjóðgarður var tálgaðar í sundur með rammaáætlun.

Þegar frumvarpið kom til þingsins var búið að búa svo um hnútana að svokölluð jaðarsvæði höfðu verið skilgreind þar sem rekstur nýrra orkuvera var heimilaður. Jaðarsvæði er samt villandi heiti á þessum svæðum vegna þess að þau eru ekkert á kantinum öllsömul. Þau eru mörg í miðjum garðinum, eins og Skrokkölduvirkjun sem er uppi við Vonarskarð. 15 virkjunarkostir 3. áfanga rammaáætlunar eru á svæðum sem teljast á jaðarsvæðum í frumvarpinu. Fyrir utan Skrokköldu mætti nefna t.d. þrjár virkjanir sem raða sér sunnan við Torfajökulssvæðið, sem er eitt það dýrmætasta á þessu svæði. Þar er hugmyndin sú að halda því opnu að einhvern tímann í framtíðinni megi reisa þarna þrjú 80 MW kjarnorkuver með tilheyrandi raski og gufubólstrum og hvað það er sem spillir upplifun fólks af náttúrunni á þessu svæði.

En gott og vel. Vandræðagangurinn birtist líka í því að þegar málið loksins leit dagsins ljós síðastliðið haust, eftir að Covid-faraldurinn hafði verið notaður sem tylliástæða fyrir því að leggja málið ekki fram fyrir ári, þá setti Framsóknarflokkurinn Íslandsmet í fyrirvörum við stjórnarfrumvarp með því að útlista í sjö allítarlegum liðum hvað það væri sem flokkurinn gerði að skilyrði fyrir því að þetta frumvarp næði fram að ganga. Það áhugaverða við þessa fyrirvara Framsóknarflokksins er að þeir virðast allir lifa. Þeir rata inn í nefndarálit meiri hlutans, rödd Framsóknar, rödd andstöðunnar við þetta frumvarp lifir enn í nefndaráliti meiri hlutans, nefndaráliti sem er erfitt að lesa sem annað en þunga gagnrýni á umhverfis- og auðlindaráðherra sem lagði þetta mál fram eftir að hafa sagst hafa gert ýmislegt sem í þessu nefndaráliti meiri hluta þingmanna er sagt að þurfi að gera betur. Hér stendur í nefndarálitinu að það þurfi að vanda sem best til verka, það þurfi að ríkja traust, það þurfi að ná sátt og það þurfi víðtækt samráð. En mér skildist á 1. umr. málsins að allt þetta teldi ráðherrann sig hafa gert á þeim tveimur árum sem ráðuneytið var á fullu í samráði um allt land.

Það sem þetta sýnir okkur kannski er að þegar kemur að samráði þá er magn ekkert endilega það sama og gæði. Miðað við umsagnirnar hefur eitthvað vantað upp á að þeir aðilar sem samráð var haft við upplifðu að á þá væri hlustað, að þetta hafi verið nær því sem sumir umsagnaraðilar kölluðu sýndarsamráð. Þegar svo er með mál þar sem er jafn langt á milli stjórnarflokkanna og raun ber vitni í þessu máli þá var kannski fullkomlega fyrirsjáanlegt að málið færi eins og það fór. En það er önnur lexía sem draga má af þessu máli, fjarlægðin á milli flokkanna. Hún sýnir að það er erfitt að brúa á milli andstæðra póla í ríkisstjórn og ætla á þeim forsendum að ná í gegn umdeildum málum. Nýleg skoðanakönnun þar sem fram kom að nú væri stuðningur við þjóðgarð á miðhálendinu kominn niður í 43% sýndi að þeim stuðningi væri mjög misskipt eftir stjórnmálaskoðunum fólks. Það er eiginlega alveg skýrt að flokkarnir þar sem grasrótin, þar sem kjósendur flokkanna styðja stofnun þjóðgarðs eru Samfylking, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn, en andstaðan er yfirgnæfandi hjá Miðflokknum, Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Lexían af þessu ætti að vera sú fyrir fólk sem vill fá miðhálendisþjóðgarð að kjósa flokka sem vilja vinna af alvöru að því verkefni með því að mynda ríkisstjórn með flokkum sem vilja vinna þetta vel.

Þetta segi ég vegna þess að þegar nefndarálitið með frávísun var orðið að staðreynd, þegar það var orðið að skjalfestri staðreynd að drepa ætti frumvarpið, birtust talsmenn Vinstri grænna keikir og sögðu að þetta þýddi bara að það þyrfti að setja þetta mál inn í kosningarnar, gera það að kosningamáli og setja síðan á oddinn í næstu stjórnarmyndunarviðræðunum.

Herra forseti. Hvað er það aftur þegar fólk gerir það sama aftur og aftur býst við einhverri annarri niðurstöðu? Er það ekki bara einhver tegund af rugli?

Nei, lexían af þessari ofboðslega sorglegu vegferð er auðvitað sú að flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni í dag hafa ekki burði til þess að stofna þjóðgarð á hálendi Íslands sem sátt getur ríkt um. Fyrir því er einfaldlega ekki vilji í þeirra liði og þegar forystufólk þessara flokka ætlar að stefna í sama stjórnarfar að loknum kosningum þá er auðvitað fullkomlega ótrúverðugt þegar þau halda því fram að þau ætli bara að gera þetta á næsta kjörtímabili. Svona á nefnilega ekki að láta með jafn mikilvægt mál. Við sem viljum sjá friðlýsingu hálendisins taka á sig þá mynd að þar sé stofnaður þjóðgarður, sem taki utan um alla þá einstöku náttúru sem þar er að finna í þágu náttúruverndar og komandi kynslóða, eigum ekki að láta bjóða okkur þetta rugl. Fólk sem vill hálendisþjóðgarð getur litið á sögu síðustu fjögurra ára og lært þá lexíu að í núverandi ríkisstjórn er lausnina ekki að finna.

Ég vona að þrátt fyrir þessa hrösun, þessa hræðilega klúðurslegu og afdrifaríku hrösun, verði hálendisþjóðgarður að veruleika fyrr en síðar. En ég er hræddur um að ein af arfleifðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sé að hafa gert verkefnið það miklu óvinsælla en það var fyrir síðustu kosningar að það gæti orðið lengra í það að þessi þjóðgarður komist á koppinn en ella.