151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er Alþingi Íslendinga að segja að það vilji byggja á allri þeirri miklu vinnu sem farið hefur fram, öllum þeim umsögnum sem komið hafa um málið og öllum þeim umræðum sem verið hafa um það. Það gefur augaleið að Alþingi er þá ekki sammála því að þessi vinna hafi öll farið fram, hún eigi eftir að fara fram. Við teljum mjög mikilvægt, til að ná sátt um málið og í ljósi þess hversu mikil vinna er á bak við það og eins það sem við óskum eftir að verði gert, að fara fram á það hér að það komi aftur inn í þingmálið. Það eru fleiri leiðir til að stofna þjóðgarða. Það er hægt að gera það með stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er hægt að gera það með friðlýsingu samkvæmt náttúruverndarlögum. En við viljum fá þetta inn í þingmálið svo þessi vinna haldist utan um það og þingið fái að halda utan um þetta mál. Það er gríðarlega mikilvægt.