151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það að í fyrsta sinn sem ég byrjaði að tala um hálendisþjóðgarð var þegar ég fékk þingskjal í umhverfis- og samgöngunefnd frá hæstv. ráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tilnefndi sem ráðherra. Síðan þá hefur þetta mál verið á dagskrá Alþingis. Ég ætla ekki að víkja mér undan því að ræða svo mikilvægt mál sem hálendi Íslands er. Ég ætla ekki að gera það. Ég tek glaður þátt í þessari vinnu og hef, eins og ég hef margoft komið inn á, hlustað á fólkið, sett þverpólitísku skýrsluna fram með öllum þessum áherslum og athugasemdum og öðru slíku sem gagnaðist svo við umfjöllun um þetta mál. Þetta frumvarp hefur aldrei verið samþykkt. Ég er með mikla fyrirvara við þetta frumvarp. Við erum ekki að fara að samþykkja frumvarpið. Það er út af því að það var hlustað á fólkið, fyrst í gegnum skýrsluna og svo komu umsagnir til nefndarinnar og út af umsögnunum sem komu fyrir nefndina og vinnuna við málið er gerð frávísunartillaga en ekki nefndarálit um að samþykkja frumvarpið óbreytt. Þetta er nú ekkert flóknara en svo. Þetta er nefnilega ekkert flóknara en svo. Þó að fram hafi komið frumvarp fram sem var ekki alveg eftir vilja fólksins er ekki þar með sagt að við höfum skrifað upp á frumvarpið, enda erum við ekki að leggja til að það sé samþykkt. Þannig að það er svolítið skrýtið að fylgjast með þessum sviðsmyndum sem Miðflokkurinn er að reyna að bjóða almenningi upp á hér.