151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt að þverpólitíska nefndin hafi samþykkt frumvarpið. Vissulega kom frumvarpið þar til umræðu en þverpólitíska nefndin hafnaði því að setja nafn sitt við það frumvarp og kvittaði aldrei upp á það heldur upp á skýrsluna. Ég gaf sérstaklega út fyrirvara með skýrslunni sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í henni, svo það sé algerlega á hreinu. Hæstv. umhverfisráðherra kom með frumvarpið á þarsíðasta þingi til þingflokka en það kom ekki til þingsins. Í millitíðinni fer hann aftur og hittir sveitarfélögin og gerir breytingar á frumvarpinu og það mál kemur svo til þingsins með miklum fyrirvörum. Ég hef farið yfir mína fyrirvara hér í þessum ræðustól. En við vildum hleypa frumvarpinu til þingsins til að kalla umræðuna fram, til þess að fá einhverja þinglega meðferð á málinu, kalla eftir vilja og skoðunum almennings um þetta mál, leyfa þinginu að takast á við málið eins og oft er gert með þingmál.