151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

aðbúnaður og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda.

804. mál
[19:48]
Horfa

Frsm. velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur vil ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu vegna þess að hún skiptir líka mjög miklu máli. Þær sögur sem við heyrum af aðbúnað í dag eru því miður ekki traustvekjandi. Í velferðarnefnd Alþingis fengum við landlækni til okkar til að spyrjast fyrir um eftirlit og möguleika embættisins til eftirlits með því sem á sér stað inni á lokuðum deildum og fengum þau svör að það eru fjórir starfsmenn hjá embætti landlæknis sem eru með öðrum störfum að sinna eftirliti með allri heilbrigðis- og velferðarþjónustu á Íslandi. Þetta eru yfir 2.000 staðir sem þessir fjórir starfsmenn eiga að rannsaka. Síðasta heimsókn á réttar- og öryggisgeðdeildina fór t.d. fram 2014. Þarna inni á þessum deildum er fólk sem er lokað inni, sumir í einhverjar vikur, aðrir í einhverja mánuði og enn aðrir í nokkur ár. Það að embættið sé svona vanmáttugt til að hafa eftirlit með þessum stofnunum er auðvitað smánarblettur á okkur.

Varðandi rannsóknina þá tel ég persónulega mjög mikilvægt að um verði að ræða rannsóknarnefnd Alþingis vegna þess að lög um rannsóknarnefndir Alþingis eru gríðarlega góð, af því að við þá lagasetningu hafði Alþingi vit á því að passa að heimildir rannsóknarnefndarinnar til að afla upplýsinga og skylda fólk til að mæta til skýrslutöku væru mjög víðtækar. Þess vegna eru þetta svo góð lög og miklu betra og nýtur miklu meira trausts heldur en að fá stjórnsýslunefnd inni í stjórnkerfinu, sem er framkvæmdarvaldið sem ber ábyrgð á öllu systeminu, það eykur traust á að rannsóknin verði faglegri. Ástæðan fyrir því að við flytjum ekki þingsályktunartillögu um rannsóknarnefnd núna (Forseti hringir.) er sú að í slíkri þingsályktunartillögu verða spurningarnar að vera formaðar og þær koma í lok þessa árs. Það eru þær spurningar sem við eigum eftir að fá.