151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir vel ígrundað og vel skrifað nefndarálit, glæsilegt nefndarálit verð ég að segja. Ég verð að segja það að ég hef einu sinni prófað að vera fyrrverandi þingmaður, fékk eitt ár af því á milli kjörtímabila á sínum tíma og verandi nörd sem hefur gaman af því að grúska í skjölunum hérna — og mun eflaust sakna þess ef ég hef ekki nægan tíma til þess að loknum næstu kosningum — veit ég líka og hef fundið á eigin skinni hvernig það er að vilja virkilega skoða eitthvert mál á Alþingi, öðlast áhuga á einhverju máli sem óbreyttur borgari úti í bæ, þó með þingreynslu, og hafa aðgang að meira eða minna öllu sem Alþingi gerir; ræðunum hérna, þingskjölunum sjálfum, umsögnunum, ræðum sem koma í kjölfarið, atkvæðagreiðslum og síðan auðvitað niðurstöðunni.

En það er blindur blettur í meðferð Alþingis á málum og hann er óþarfur en það eru nefndafundirnir sjálfir. Eins og ég hef nefnt áður eru nefndarfundir ekki mjög heppilegir staðir til að fremja einhver myrkraverk eða standa að einhverri spillingu eða samsærum. Það væri afskaplega ópraktískt af hálfu þeirra sem hefðu áhuga á slíku. Nefndarfundir eru fyrst og fremst til upplýsingar. Þar koma fram spurningar og þar koma fram svör. Þessar spurningar og þessi svör eru gagnleg, ekki bara fyrir þingmennina sem sitja fundina heldur líka fyrir fjölmiðla og fyrir almenning. Þetta er ekki róttæk hugmynd, þetta er ekki stórt skref. Það á að vera auðvelt fyrir okkur að leggja það til hér og samþykkja að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)