151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þessa frávísun kemur það fram hér að meiri hlutinn telur að betur fari á því að skoða þetta mál heildstætt og vísar til þess að hvorki sé leit í gangi né leyfi veitt af hálfu íslenskra stjórnvalda í dag. Ég get ekki sagt til fyrir fram um einhverja niðurstöðu. Það getur enginn. En það er vilji til þess af hálfu þessarar ríkisstjórnar eða þess meiri hluta sem hér skrifar undir að þetta mál verði skoðað. Ég ítreka það enn og aftur að vilji Vinstri grænna er skýr í þeim efnum, en enginn getur gefið sér niðurstöðu fyrir fram þegar verið er að vísa málum til heildstæðrar skoðunar í samhengi við aðra hluti og hvaða lögum þyrfti að breyta og annað því um líkt. Það segir sig því sjálft að þetta nefndarálit með frávísunartillögu gengur ekki út á það að vera með langa og ítarlega leiðsögn í þeim efnum. Þetta er eitt af þeim málum sem er afgreitt við þinglokasamninga og gefst heldur ekki tími til að vinna einhverjar langar útskýringar á því, enda held ég að hv. þingmaður hafi ekki reiknað með því við afgreiðslu á þessu máli sem hann er 1. flutningsmaður að.