151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég þurfi aðeins að fylgja eftir spurningum hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar vegna þess að ég er engu nær um afstöðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur gagnvart því hvort það standi yfir höfuð til í huga einhverra að banna olíuleit. Hv. þingmaður segir að það sé hluti af stefnu síns flokks að banna olíuleit en að enginn viti hvað verði um þetta fyrst við erum að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar. Gott og vel. Hvers vegna gat hv. þingmaður, flokkurinn hennar, stjórnarmeirihlutinn, ekki bara samþykkt þetta frumvarp sem liggur hérna fyrir, sem myndi banna olíuleit? Af hverju var stjórnarmeirihlutanum algjörlega fyrirmunað að gera það? Hvers vegna samþykkir Vinstrihreyfingin – grænt framboð að við vísum þessu máli til ríkisstjórnarinnar með óviss örlög? Við vitum ekki hvað gerist næst. Við höfum ekki hugmynd um það. Hvað sem er gæti gerst með slíku orðalagi í áliti, þar sem kemur fram að ekki liggi fyrir hvort vilji sé til að setja bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis.

Hv. þingmaður reynir líka að segja að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hljóti að vilja að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess að meiri hlutinn ákvað að það væri eina leiðin til þess að fá samþykkt að setja málið á dagskrá á þingi. Hv. þingmaður hlýtur að vera meðvitaður um nefndarálit samflokksmanns hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar þar sem við mótmælum einmitt þessari málsmeðferð meiri hlutans. Það er ekki hægt að gera okkur það upp að við séum sammála því að vísa banni við olíuleit út í hafsauga. Hvernig fær hv. þingmaður það út? (Forseti hringir.) Hvers vegna gat hv. þingmaður ekki bara samþykkt bann við olíuleit?