151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[23:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vildi nýta tækifærið og gleðjast yfir því að við skulum vera að samþykkja þetta frumvarp hér í dag. Með því gefum við Fangelsismálastofnun heimild til að nýta úrræðið samfélagsþjónustu í allt að 24 mánaða dómum, mæli almannahagsmunir ekki gegn því. Þetta er því ekki algilt úrræði fyrir þá sem fá innan við tveggja ára fangelsisdóma. Þetta er gríðarlega mikilvægt, bæði til að minnka endurkomutíðni þeirra sem fá þessa dóma í fangelsi, en líka til að stytta þá löngu boðunarlista sem eru í kerfinu og við höfum tekið verulega á þeim, bæði með þessu úrræði, aukinni reynslulausn og náðun þeirra sem beðið hafa lengi. Þetta er hluti af mikilli og mikilvægri vinnu um betrun fanga sem er einnig í vinnslu hjá mér og félagsmálaráðherra.