151. löggjafarþing — 114. fundur,  13. júní 2021.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

668. mál
[00:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá vinnu sem farið hefur í þetta frumvarp. Ég mun vissulega styðja að það verði að lögum. Ég vildi koma hingað upp til að segja að ég hefði óskað að við hefðum getað komið okkur saman um ákvæði gegn nafnlausum áróðri sem hefði einhverja alvörumerkingu, að því marki að lögreglan hefði einhver alvöruverkfæri til að bregðast við nafnlausum áróðri. Eins og ákvæðið er orðað í lögunum núna hefur lögreglan ekki heimildir til að rannsaka hver stendur að baki nafnlausum áróðri. Þetta er vissulega viljayfirlýsing en það vantar allar tennur í þetta ákvæði og mér þykir það leitt. Vonandi gerum við betur næst. Að öllu öðru leyti er þetta auðvitað frábært frumvarp og vel að því staðið en ég hefði viljað sjá okkur sýna aðeins meiri festu gagnvart þessu.