151. löggjafarþing — 114. fundur,  13. júní 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[00:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir, tillaga sem hefur reyndar verið lögð fram áður af þeim sem hér stendur. Mig langar til að biðla til þingmanna að íhuga tillöguna frekar þegar kemur að næsta kjörtímabili. Mörg hér inni verða þá hér líka. Ég hygg nefnilega að áhyggjurnar sem ég hef heyrt þingmenn varpa fram í sambandi við opna nefndarfundi séu á röngum rökum reistar. Þetta er gert annars staðar, það er ekki til trafala. Þar sem nefndarfundir eru opnir vill enginn loka þeim. Það er ástæða fyrir því, það er vegna þess að þeir eru góð hugmynd. Það er ekki róttæk hugmynd, það er ekki stórt skref, þeir eru í raun mjög sjálfsagðir.

Dropinn holar steininn og ég trúi því og treysti að í framtíðinni muni fleiri og fleiri þingmenn leggja til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)