151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

frestun á fundum Alþingis.

873. mál
[14:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég greiði ekki atkvæði með þessu því að ég get ekki fallist á forsendurnar fyrir þessari tillögu. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli er að við klárum á þessu þingi umræðu um þær tillögur sem við höfum verið að ræða á meðal formanna stjórnarflokkanna og það sem tillögur forsætisráðherra fela í sér. Ég tel þær ekki fullræddar. Ég tel enn þá að þingið geti komið sér saman um tiltekin ákvæði hér í þingsalnum sem við höfum verið að ræða allt kjörtímabilið. Á þeim forsendum sit ég hjá. Ég get ekki tekið undir að það eigi að innleiða hina svokölluðu nýju stjórnarskrá, ég hef ekki verið þeirrar skoðunar og hef ekki breytt þeirri skoðun minni. Ég tel þingið engu að síður fullfært og stöndugt í að breyta stjórnarskránni í þá veru sem við höfum verið að ræða, fyrir utan auðvitað auðlindaákvæðið. Ég hefði viljað fá hina pólitísku sýn og afstöðu hér inni í þingsal (Forseti hringir.) sem stjórnarflokkarnir hafa haft gagnvart auðlindinni okkar eða þá sýn sem m.a. við í Viðreisn höfum talað um, að það eigi að tímabinda samninga um auðlindina og tryggja hlut þjóðar (Forseti hringir.) þegar kemur að sjávarauðlindinni.