152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Kæru landsmenn, gleðilegan fullveldisdag. Ég vil byrja á því að óska ríkisstjórninni alls hins besta og vona að hún verði þjóðinni allri til farsældar. Á ferli mínum hér á þingi hef ég ýmist verið í ríkisstjórnarliði eða í andstöðu. Ég hef fundið til þeirrar ábyrgðar að fara með meirihlutavaldið en líka fundið að lýðræðið virkar ekki án aðhalds. Reynslan hefur kennt mér að ein þýðingarmesta gagnrýni stjórnarandstöðu er oft fólgin í því að greina það sem ekki stendur í stjórnarsáttmála.

Stjórnmál snúast einmitt um þetta; að velja og hafna. Í stjórnarsáttmálanum eru hins vegar flestöll þau mál nefnd á nafn sem hægt er að láta sér detta í hug og ríkisstjórnin er meira að segja búin að átta sig á því, til hamingju með það, að þjóðin er að eldast, og framtíðin, já, hún er handan við hornið. Er þá ekki bara allt í góðu? Vandamálið er að þetta er ekki pólitík. Þetta er ekki pólitík. Þetta er eins og börnin sem skrifa alla heimsins hluti á jólagjafalistann og verða síðan fyrir vonbrigðum með það sem ekki rætist.

Markmið alvörustjórnarsáttmála er að setja í forgangsröð og markmiðin eru síðan tímasett og mælanleg. Tökum dæmi: Markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eru ágæt. Enginn veit hins vegar hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná þessum markmiðum. Ríkisstjórnin veit það reyndar ekki sjálf, þrátt fyrir að hafa rætt málin linnulaust í átta vikur. Þessi aðferð, að þegja um það sem er óþægilegt, er að verða vörumerki þessarar ríkisstjórnar. Meira en tvö ár eru t.d. síðan ríkisstjórnin setti fram metnaðarfulla heilbrigðisáætlun til 2030. Hún er enn ófjármögnuð og lítil svör er að finna í stjórnarsáttmála einmitt um þennan kjarna máls.

Ríkisstjórnin bætti við sig þingsætum fyrst og fremst vegna löngu tímabærra fyrirheita fyrir börnin í landinu. Fyrirheitin eru í stjórnarsáttmálanum en það stingur að sjá hvað vantar að segja. Tímasettar fjármagnaðar aðgerðir til að stytta biðlista barna eftir heilbrigðis- og félagsþjónustu og fjármunir eru vart finnanleg í fyrstu fjárlögum eftir kosningasigur sem var einmitt sóttur út á það að ætla að gera betur fyrir börnin, fötluð sem ófötluð. Þetta er eins dapurlegt og hugsast getur.

Það vantar alls ekki upp á góðan ásetning, alls ekki. En forystumenn þessarar ríkisstjórnar vita sem er að aðgerð sem nýtur ekki fjármagns er ekkert annað en hugmynd, sama hversu góð sem hún er. Einu skýru mælanlegu stefnumálin í sáttmálanum eru raunar um þau atriði sem alls ekki á að breyta. Sjávarútvegurinn er að venju algerlega ósnertanlegur og svo er auðvitað skýrt kveðið á um að ekki verði tekin nein skref í Evrópusamvinnu þrátt fyrir að þar felist ný og mjög dýrmæt tækifæri, ekki síst fyrir framtíðarkynslóðir landsins.

Ríkisstjórnin segist ætla að vaxa út úr vandanum, sem ég tek heils hugar undir, en það gerist ekki án verðmætasköpunar. Ríkissjóður var, vel að merkja, orðinn ósjálfbær strax árið 2019 og rekinn með halla. Það er dómurinn um hina ábyrgu hagstjórn, halli löngu fyrir heimsfaraldur þegar allar aðstæður voru góðar. En hvað með daginn í dag? Viðspyrna Íslands framan af faraldri var heldur slakari en annarra Evrópulanda og nú gerir Seðlabankinn ráð fyrir að það hægi verulega á hagvexti að ári liðnu. Það eru alvarleg tíðindi. Það þýðir einfaldlega að við náum ekki að vaxa út úr vandanum samhliða blússandi verðhækkunum, verðbólgu og vaxtahækkunum. Þessi staða er alvarleg fyrir fjárfestingu í velferð, menntun og í fólkinu sjálfu. Í stjórnarsáttmálanum voru tækifæri til að mæla fyrir um markvissar aðgerðir til að örva hagvöxt nægilega mikið til að breyta einmitt þessari spá Seðlabankans. Aðgerðirnar er hvergi að finna.

Kjaramálin munu ráða miklu um hag heimila og fyrirtækja. Skynsamlegir kjarasamningar eru forsenda stöðugleika en það er ekki hægt að skapa traust fólks og fyrirtækja nema ríkisstjórnin sjálf sýni hvernig hún ætlar að tryggja verðmæti peninganna. Hún þarf líka að hafa skýra framtíðarstefnu sem ýtir undir traust launafólks, sem t.d. auðveldar ungu fólki og efnaminna kaup á húsnæði, stefnu um þýðingarmestu fjárfestingu í lífi flestra landsmanna.

Þungamiðjan hjá stjórnarflokkunum virðist þegar upp er staðið vera fjölgun ráðherrastóla og afar fálmkennd tilfærsla verkefna og það er ekki beint trúverðugt að þeir sem kenna sig við aðhald í ríkisrekstri byrji á því að þenja út báknið. Svo er boðað jafnvægi — fyrirgefið, bara ekkert annað en moðsuða. Þannig að þrátt fyrir langan aðdraganda og nýjar umbúðir hefur því lítið breyst, kæru landsmenn. Það er eins og munurinn á síðasta kjörtímabili og því sem nú blasir við sé álíka mikill og munurinn á gamla Bónusgrísnum og þeim nýja.

Virðulegur forseti. Viðreisn mun veita ríkt aðhald í efnahagsmálum svo unnt sé að byggja upp og horfa til framtíðar í þágu næstu kynslóðar, leggja áherslu á að systurnar velsæld og velferð verði grunnstoðir í íslensku samfélagi. Við munum tala fyrir því að ríkissjóður standi undir sér til lengri tíma litið. Við munum gera okkar til að stöðugleiki á vinnumarkaði náist og forsendur nýsköpunar styrkist, að umræða um gengisstöðugleika verði á dagskrá stjórnmálanna, að hér verði land tækifæranna fyrir öll en ekki bara sum, að öflug þjónusta, blómleg menning, jafnrétti og valfrelsi fólks verði leiðarljós í okkar góða samfélagi.

Viðreisn ætlar að veita ríkt aðhald þegar kemur að loftslagsmálum, í auðlindamálum, um skynsamleg skref í stjórnarskrármálum og málefnum jaðarsettra hópa, fyrir fjölbreyttara og sterkara samfélag. Við munum halda áfram að spyrja óþægilegra spurninga um hagsmuni og völd, biðja um skýrslur sem má alls ekki birta. Við munum láta finna fyrir okkur og láta í okkur heyra. Reynslan af ríkisstjórninni segir okkur að ekki veiti af. Gæta almannahagsmuna og tala gegn sérhagsmunaöflum fyrir fólkið í landinu fyrir ykkur, þjóðina sjálfa.