152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Fyrst vil ég óska okkur öllum til hamingju með 103 ára afmæli fullveldis Íslands. Að því sögðu vil ég óska nýskipaðri ríkisstjórn gæfu í störfum sínum, þrátt fyrir að okkur greini á um mörg af þeim markmiðum sem útlistuð eru í stefnuræðu forsætisráðherra og málefnasamningi ríkisstjórnarinnar.

Gárungar virðast hafa lent í nokkrum vandræðum með að skíra stjórnina. Sjálfur ætla ég að kalla hana Höfuðborgarstjórnina. Reykjavíkurlistanafnið var frátekið. Það er nýlunda að allir ráðherrar séu annaðhvort búsettir á suðvesturhorninu, á svæði sem nær frá Korpu að bökkum Hvítár, eða séu fulltrúar höfuðborgarkjördæmanna þriggja. En fyrst og fremst er nafngiftin til komin vegna ofuráherslu flokkanna á að innleiða samgöngustefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík með borgarlínu og tengdum verkefnum.

Eftir tæp tvö ár af Covid-aðgerðum er fyrirsjáanleiki og festa mikilvægari en nokkru sinni fyrr fyrir atvinnulífið í landinu. Það er því skrýtin staða sem mörg fyrirtæki finna sig í um þessar mundir þar sem það fer eftir því hver starfsemi þeirra er hvort þau horfa fram á boð og bönn eða bara alls ekki. Stjórnin er því ýmist vinstri stjórn eða hægri stjórn gagnvart fyrirtækjunum í landinu. Meðferðina frá vinstri þekkja fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu frá liðnu kjörtímabili.

Ég vil leyfa mér að gagnrýna orð hæstv. forsætisráðherra í stefnuræðu sinni þar sem ráðherrann sagði skattkerfið fjármagna samneysluna. Í þessum orðum felst grundvallarmisskilningur vinstri manna á því hvernig verðmæti verða til. Það eru fyrirtækin og fólkið í landinu sem fjármagna samneysluna. Án þeirra fjármuna sem teknir eru af fyrirtækjum og heimilum landsins til að standa undir samneyslunni verður ekki um neina samneyslu að ræða. Á meðan ekki er skilningur á því er ólíklegt að við sem þjóð losnum úr þeirri stöðu í bráð að bera eina hæstu skattbyrði allra þjóða í OECD.

Hið mæðulega kosningaslagorð Framsóknarflokksins virðist hafa verið leiðarljós formanna stjórnarflokkanna þá tvo mánuði sem þau sátu við og leituðu leiða til að blása lífi í hjúskapinn með nýjum stjórnarsáttmála. Orðin „áfram“ eða „áframhaldandi“ koma fram 58 sinnum. Síðan á að viðhalda ýmsu, t.d. ætlar ríkisstjórnin sér að viðhalda, með leyfi forseta: „… góðri stöðu Íslands varðandi sýklalyfjaónæmi“. Það er athyglisvert, komandi frá sömu stjórnarflokkum og lögðu ofuráherslu á að leyfa innflutning á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólk á fyrri hluta síðasta kjörtímabils.

Það er hins vegar eitt sem ekki virðist eiga að halda áfram með, það er verkefnið Allir vinna, verkefni sem hefur gert okkar skattpíndu þjóð auðveldara að sinna viðhaldi á húsum sínum og bílum. Á sama tíma og hrávöruverð hækkar sem aldrei fyrr er talið skynsamlegt að hækka byggingarkostnað með því m.a. að draga úr þessum hvata til viðhalds og nýbygginga á húsnæði sem svo sárlega er skortur á um þessar mundir.

Virðulegur forseti. Nú þegar ég hef nefnt skatta, það hversu háir þeir eru og hvaða augum ríkisstjórnin virðist líta sjálfsaflafé fólks og fyrirtækja, er ekki annað hægt en að nefna furðuhugtak sem ég veitti athygli í fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Það er hugtakið skattstyrkir. Hvað skyldi það nú vera? Skattstyrkir virðast vera fjármunir sem ríkissjóður tekur ekki af fólki og fyrirtækjum. Skín þar í gegn sú sýn nýrrar en áframhaldandi ríkisstjórnar að ríkissjóður eigi þetta allt saman en af lítillæti sínu og hjartahlýju skilji stjórnvöld eitthvað eftir í vasa fólksins sem vinnur fyrir því. Þetta er sama nálgun og þegar stjórnvöld skattlögðu borgarana en skiluðu síðan hverjum og einum heilum 5.000 kr. og kölluðu það gjöf, ferðagjöf.

Herra forseti. Við verðum að fara að umgangast sjálfsaflafé fólks og fyrirtækja af meiri virðingu heldur en við höfum gert undanfarin ár.

Hæstv. forsætisráðherra kom inn á það í ræðu sinni að sýn ríkisstjórnarinnar væri, með leyfi forseta: „Ísland verði í forystu í alþjóðlegu samstarfi um þróun velsældarmælikvarða.“

Herra forseti. Ég er alveg viss um að eldri borgarar og öryrkjar hafa meiri áhuga á því að stjórnvöld einhendi sér í að bæta kjör þeirra. Þau kjör snúast oftast um krónur og aura og það að njóta forsvaranlegra búsetuskilyrða. Við sem þjóð erum í efstu sætum í flestum þeim úttektum sem gerðar eru á t.d. hamingju og jafnrétti, svo eitthvað sé nefnt. Einbeitum okkur nú að því að raunverulega bæta kjör þeirra sem lakar hafa það í stað þess að vera í innantómum orðaleikjum og prjáli.

Á nýliðnu kjörtímabili var hart tekist á um hálendisþjóðgarð. Það tókst með harðfylgi að afstýra því stórslysi sem var í uppsiglingu en undrun vakti þegar undir lok síðasta þings kom fram yfirlýsing í formi nefndarálits þáverandi og núverandi stjórnarflokka þar sem efnislega sagði að ef þessir flokkar næðu áfram samstarfi á nýju kjörtímabili um myndun ríkisstjórnar yrði umhverfisráðherra uppálagt að leggja fram nýtt frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar héldu því fram að málið væri ekki vaxið eins og beinlínis stóð í yfirlýsingu þeirra sjálfra. Það yrði ekkert úr því að þjóðgarður yrði settur á laggirnar. Því miður trúðu margir fagurgalanum. En hver er staðan nú þegar stjórnarsáttmáli liggur fyrir? Jú, þjóðgarðinum verður kláraður, hann verður settur í spariföt stærri Vatnajökulsþjóðgarðs. En það sem ætti að vekja ugg þeirra sem trúðu því að ekkert yrði af áformunum eru viðbrögð fyrrverandi umhverfisráðherra og núverandi hæstv. félags- og vinnumarkaðsmálaráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, þar sem hann, spurður að því hvort hann væri ekki svekktur með það hvernig farið hefði fyrir því máli í stjórnarsáttmálanum, svaraði því til að hann væri það alls ekki, þvert á móti, og sagði: Það mun verða til hálendisþjóðgarður og það hvernig hann er teiknaður þarna upp býr til þá umgjörð sem við þurfum til, til verndar hálendinu. Og síðar verður hægt að stækka hann þegar þessu er lokið.

Og síðar verður hægt að stækka hann þegar þessu er lokið. Svo mörg voru þau orð. Það virðist vera við hæfi að óska fyrrverandi umhverfisráðherra og þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til hamingju með sigurinn í þessu máli, sennilega fullnaðarsigur að mati þeirra sjálfra. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks útskýra þetta þegar þar að kemur, þá að líkindum heldur mæðulegir.

Virðulegur forseti. Eins og alþjóð veit tóku formenn stjórnarflokkanna sér góðan tíma til að endurnýja heitin, tvo mánuði raunar. Það var athyglisvert að skoða málaskrá ráðherra sem var lögð í pósthólf þingmanna í fyrradag. Mesta athygli mína vakti að ríkisstjórnin ætlar nýjum heilbrigðisráðherra að hafa forystu um að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna. Nýr ráðherra, sem ég óska alls hins besta, gæti lent í áhugaverðum rökræðum við sjálfan sig úr fortíð. Því verður vart trúað að eftir tveggja mánaða yfirlegu hafi formennirnir þrír ekki nennt að líta til með málaskránni heldur bara lagt fram þá gömlu. Það myndi setja orðtakið „gamalt vín á nýjum belgjum“ í alveg nýtt samhengi.

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir það sem ég hef rakið hér að framan þá vona ég að ríkisstjórninni takist eins bærilega og mögulegt er upp við það verkefni að stýra landinu. Á því velta lífskjör landsmanna. Ég vona að upplýsingaóreiðan verði minni en við fengum að kynnast á liðnu kjörtímabili. Áhugavert væri ef af og til kæmi upp sú staða að stjórnarflokkarnir tækju undir góðar tillögur þó að þær komi ekki úr þeirra eigin ranni í stað þess að slátra þeim og gera svo að sínum eigin nokkru síðar.

Kæru landsmenn. Lifið heil.