152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:07]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Kæru landsmenn. Að taka sæti á Alþingi Íslendinga er hlutverk sem ég tek alvarlega og mun leggja mig fram um að sinna því eins vel og mér er framast unnt. Nú þegar ríkisstjórn er loks mynduð veltum við því fyrir okkur við hverju megi búast og hvort verulegar breytingar verði á komandi kjörtímabili til hagsbóta fyrir íbúa þessa lands.

Fyrir mig sem sveitarstjórnarmann til fjölda ára verður uppbygging grunninnviða það sem ég vil helst leggja áherslu á, enda kom það í ljós á ferðum mínum um Suðurkjördæmi í aðdraganda kosninga að það var það sem íbúar vildu ræða. Ekkert landsvæði þrífst án öflugrar heilbrigðisþjónustu og samgöngukerfis sem ber þann umferðarþunga sem á því er.

Erum við að sjá þess stað í nýjum stjórnarsáttmála að lögð sé áhersla á að styrkja þessa grunninnviði? Nei, ég fæ ekki séð að svo sé. Ég leitaði t.d. að orðinu „hjúkrunarheimili“ í nýjum stjórnarsáttmála en gat hvergi séð að um þau væri fjallað. Vandi Landspítalans hefur legið fyrir um áraraðir og margsinnis hefur verið á það bent að ein þeirra leiða sem hægt væri að fara til að létta álagi af spítalanum sé að byggja fleiri hjúkrunarheimili. En það er eins og ekki sé á slíkt hlustað. Það var t.d. skrifað undir samning milli Reykjanesbæjar og ríkisins í febrúar 2019 um byggingu nýs hjúkrunarheimilis en þar er enn ekki farið að stinga niður skóflu. Þá hefur þras um rekstrarfyrirkomulag staðið í vegi fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í landsbyggðunum. Hversu lengi ætlum við að láta það viðgangast? Hvenær fá landsbyggðirnar að sitja við sama borð og höfuðborgarsvæðið þegar kemur að því að veita heilbrigðisþjónustu?

Virðulegur forseti. Eitt af því sem ég hef furðað mig á í gegnum tíðina er að þó að lög séu samþykkt á Alþingi með góðum hug fylgir framkvæmdarvaldið því oft ekki eftir. Við getum tekið sem dæmi svokallaða NPA-samninga sem sveitarfélög bera ábyrgð á en eiga síðan í ágreiningi við ríkið um lögbundinn hlut ríkisins. Hér voru samþykkt lög um að semja mætti við sálfræðinga og að þeir falli undir greiðsluþátttökukerfið en degi síðar segir fjármálaráðherrann, sem samþykkti þessi lög, að ekki séu til peningar fyrir þessu. Orðum þurfa að fylgja efndir og oft er betra að lofa minna og standa þá við það sem maður lofar.

Forseti. Skortur á ráðherrum af landsbyggðinni vekur áhyggjur hjá landsbyggðarþingmanni. Af þeim tólf ráðherrum sem hafa nú verið skipaðir koma einungis tveir frá landsbyggðarkjördæmunum þremur. Hlutur landsbyggðarinnar er rýr og maður spyr hvort þetta sé einhver vísbending um það hverjar áherslurnar verða.

Kæra þjóð. Í upphafi spurði ég hvað koma skyldi fyrir íslenskan almenning. Ég held því miður að nýr stjórnarsáttmáli boði ekki miklar breytingar og að fram undan sé áframhaldandi stöðnun. Við í Viðreisn munum leggja okkar af mörkum til að breyta því.