152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Við hefjum nú nýtt stjórnarsamstarf og viljum enn skapa samstöðu á breiðum grundvelli um uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Nú er mikilvægt að horfa sérstaklega til þeirra áskorana sem blasa við vegna heimsfaraldurs og þeirra viðfangsefna sem snúast um efnahagsmál, sem snúast um að tryggja jöfnuð, en ekki síst þeirra verkefna sem lúta að loftslagsvánni.

Í baráttunni við veiruna höfum við notið leiðsagnar sem byggir á vísindum, sem byggir á rannsóknum og yfirvegun. Sú nálgun hefur reynst farsæl fyrir samfélagið í heild og verður áfram góður grunnur að efnahagslegri viðspyrnu. Loftslagsmálin vega þó til skemmri og lengri tíma þyngst, enda er sá málaflokkur alltumlykjandi í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Stórfelldur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er lífsnauðsyn fyrir komandi kynslóðir og fyrir vistkerfi jarðar. Þar verðum við öll að leggja okkar af mörkum og það getum við gert með ákvörðunum okkar og athöfnum í atvinnulífi, hjá félagasamtökum, í hópi einstaklinga eða ranni stjórnvalda, líka með því að beita þeirri rödd sem Ísland býr yfir og hefur hljómgrunn á meðal stærri og öflugri þjóða. Í loftslagsmálunum reynir ekki síst á ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar. Þar búum við að grænni stefnumótun, allt frá stofnun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og líka nýlegri stefnumótun hreyfingarinnar í atvinnumálum, loftslagsmálum og náttúruverndarmálum. Fyrir þá stefnumörkun og baklandið sem hún endurspeglar er hér þakkað.

Sjálfbærni í allri umgengni við náttúruna er lykilatriði. Við erum hluti af vistkerfum jarðar en þau þarf bæði að vernda og efla. Við höfum byggt tilveru okkar hér á nýtingu lands og sjávar um aldir og þar eru tækifærin mýmörg í nýsköpun, ýmiss konar sprotum, klasastarfi og þróunarverkefnum. Matvælaframleiðsla, sjávarnytjar og landnýting með sjálfbærni, heilnæmt umhverfi og heilsu að leiðarljósi færa okkur tækifæri sem ég hlakka til að takast á við í samstarfi við fólk og atvinnulíf um allt land.

Góðir tilheyrendur. Það er mikilvægt að gæta að samráði og samstarfi, þvert á þekkingu, rannsóknir og vísindagreinar, með aðkomu stjórnvalda í nærumhverfi, samfélaginu öllu en ekki síst á heimsvísu. Markmiðið þarf alltaf að vera að halda til haga órofa tengslum fólks og umhverfis, gæta að lífríkinu öllu og því sem nærir það. Þessi sjónarmið mun ég hafa að leiðarljósi í mínu embætti og í þeim verkefnum sem ég mun fást við og setja á dagskrá.

Enn erum við Vinstri græn kölluð til verka og aftur undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Enn heyrast raddir um eftirgjöf og linkind, raddir sem oft byggja á lítilli þekkingu og vanmetakennd en líka kvenfyrirlitningu og eiga stundum rætur í inngróinni vantrú á því að kona geti verið í forystu. Ég vísa þessum röddum hiklaust á bug. Þau okkar sem sjá forsætisráðherra í sínu hlutverki í dagsins önn greina vel að þar sem forystu er þörf og þar sem þarf að leysa flókin verkefni, þar er enginn betri. Þessi skilningur hefur margoft komið fram í afstöðu fólksins í landinu þegar spurt er um leiðtoga. Því er það sérstakt fagnaðarefni að nú í upphafi nýs kjörtímabils skuli hafa náðst öflugri meiri hluti en nokkru sinni fyrr um forystu Katrínar næstu fjögur ár.

Við búum í góðu landi sem er ríkt af auðlindum og mannauði og samheldni og slíkt samfélag á aldrei að sætta sig við fátækt, útskúfun eða einmanaleika. Það er alltaf okkar verkefni að huga að hagsmunum og velsæld þeirra sem ekki búa yfir ríku afli, fjármagni eða tækifærum til að halda sínum sjónarmiðum á lofti. Í stjórn og stjórnarandstöðu eigum við að forgangsraða í þágu hagsmuna heildarinnar. Mælikvarðar velsældar, réttlætis og sjálfbærni eiga að leysa aðra og eldri mælikvarða af hólmi og það er á þeim góða grunni sem við eigum að feta leiðina fram á veg. — Góðar stundir.