152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Góðir landsmenn. Draumar og vonir okkar jafnaðarmanna snúast um líf almennings, um heilbrigt velferðarsamfélag fyrir okkur öll, um að barnafjölskyldur fái stuðning þannig að öll börn fái notið tómstunda og öryggis, að eldra fólk geti lifað með reisn, að þau sem ekki geta unnið búi við mannsæmandi kjör, að unga fólkið okkar hafi ástæðu til að horfa bjartsýnt fram á veg og nýir íbúar boðnir velkomnir. Að velmegun og árangur í loftslagsmálum fari saman og tækniframfarir auki jöfnuð og hagsæld um allt land.

Þetta eru draumar sem geta ræst í ríku samfélagi eins og okkar, en það kallar á mikla vinnu hjá jafnaðarmönnum í stjórnarandstöðu gegn þeim sem vilja fara með íslenskt samfélag í aðra átt. Við þurfum að sýna þolinmæði og þrautseigju, áræðni og metnað en aðalatriðið er að með verkum okkar ávinnum við okkur traust almennings. Að almenningur sjái og finni að við jafnaðarmenn erum með þeim í liði. Að barátta fólks fyrir bættum kjörum og réttlæti sé barátta okkar og þeirra draumar okkar draumar.

Kosningarnar í september urðu ekki þau tímamót sem við jafnaðarmenn vonuðumst eftir. Stjórnarsáttmálinn, sem kynntur var með pompi og pragt, og fjárlagafrumvarpið voru okkur sannarlega vonbrigði. Í stjórnarsáttmálanum er hvergi talað um fátækt eða skýrar aðgerðir til að útrýma fátækt og auka jöfnuð. Það er einnig ástæða til að hafa áhyggjur af menntamálunum í höndum þessarar ríkisstjórnar sem hefur tætt mennta- og menningarráðuneytið niður og dritað um stjórnkerfið. Og sjávarútvegsmálin eiga að fara í enn eina nefndina. Talað er um sátt um auðlindir okkar en hverjir eiga að sættast og um hvað? Kannanir sýna að þjóðin er eðlilega ósátt með sinn hlut í arðinum af fiskveiðiauðlindinni. Og hvarflar að einhverjum að stórútgerðin gefi forréttindin eftir átakalaust?

Í heilbrigðismálum virðast stjórnarliðar halda að einkarekstur sé töfralausnin. Gleymum því ekki að það var pólitísk ákvörðun að svelta heilbrigðiskerfið og það er þess vegna sem það ræður ekki við meira álag og biðlistarnir lengjast. Eldra fólk er fast inni á sjúkrahúsum vegna þess að ekki er pláss á hjúkrunarheimilum og margir aðrir bíða úrræða. Ástandið er til komið vegna pólitískra ákvarðana og fátt sem bendir til að úr því verði bætt í bráð.

Einu sinni voru fleiri flokkar með okkur í liði við að berjast fyrir öruggu velferðarsamfélagi og opinberum rekstri á mikilvægum innviðum. En svo virðist sem þau hafi ákveðið að gefa slíkt upp á bátinn. Í stað þess að vera valkostur til vinstri fyrir félagshyggjufólk þá hvíla þau í faðmi íhaldsins sem er vant valdinu og kann að beita því fyrir sig og sitt fólk.

Við höfum áður tekist á við erfiðleika og snúna stöðu bæði efnahagslega og félagslega. Við í Samfylkingunni ætlum að læra af þeirri reynslu en vera jafnframt með hugann allan við framtíðina. Ekki bara framtíð flokksins okkar heldur framtíð Íslands og þeirra sem hér búa. Vonin og draumarnir eru stórir um aukinn jöfnuð og að við látum líka gott af okkur leiða til stuðnings fátækum þjóðum. Um Ísland sem fyrirmynd í friðar-, umhverfis- og jafnréttismálum. Þó að á móti blási munum við jafnaðarmenn ekki víkja frá hugsjónum okkar. Hugsjónum sem snúast ekki um fáa útvalda, heldur um okkur öll. — Góðar stundir