152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar til að nýta þann tíma sem ég á hér í lokin til að fagna og lýsa furðu minni á nokkrum atriðum sem hafa verið rædd hér í kvöld. Ég vil byrja á að fagna og hrósa afstöðu hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur til mögulegrar stjórnarskrárbreytingar sem fram kom í ræðu hæstv. forsætisráðherra í byrjun, þar sem umfang mögulegra breytinga virðist vera orðið mun hóflegra en sú ævintýraferð sem lagt var af stað í fyrir fjórum árum. Þó að tvö kjörtímabil væru áætluð undir verkefnið var það heildarendurskoðun sem ég held að aldrei hafi verið raunhæft að ná sátt um. En ég held að þetta sé til bóta.

Mig langar sömuleiðis að fagna því sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum og því sem verið hefur að gerast undanfarna daga, sem er tilfærsla skipulags- og mannvirkjamála. Ég held að það verði til mikilla bóta til framtíðar litið og þetta sé í raun löngu tímabært. Á sama tíma langar mig til að lýsa yfir furðu á ýmsum öðrum lítt útskýrðum breytingum á Stjórnarráðinu og verður forvitnilegt að sjá með hvaða hætti þær verða rökstuddar þegar verkinu vindur fram. Ég held að þar hefði verið skynsamlegt að fara sér hægar og þetta ber allt merki þess að þarna sé verið að stokka upp í ráðuneytinu til að ná fram fjölgun um einn ráðherra.

Hér hefur verið komið inn á það að frumvörp stjórnarandstæðinga séu endurnýtt. Í því samhengi langar mig að minna á frumvarp sem fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson, lagði fram fyrir hönd Miðflokksins á síðasta kjörtímabili um stjórn yfir Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það er nú orðið hluti af stjórnarsáttmála og er ánægjulegt að sjá að svo er orðið. Ég ítreka það sem ég sagði undir lok fyrri ræðu minnar; ég held það yrði til bóta og það yrði góður bragur á því að af og til yrðu góð mál sem koma frá stjórnarandstöðunni tekin til greina og kláruð.

Að endingu langar mig að segja: Góðir landsmenn. Njótið aðventunnar.