152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart að við 1. umr. fjárlaga komi upp gamla lumman: Við erum ekki að eyða nógu miklum peningum. Við ættum að vera að taka miklu meiri lán og stíga fastar niður fæti á gjaldahliðinni. Það er í raun og veru það sem hv. þingmaður var að segja: Sóknarhugurinn. Það er bara horft á útgjöldin. Það er ekkert annað.

Hvað er það sem heldur aftur af ríkisstjórninni í því að dæla bara út peningum þegar við erum þegar í 160–170 milljarða halla? Það sem heldur aftur af okkur er sú staðreynd að Seðlabankinn er að glíma við verðbólgu. Það eru skilaboðin úr Seðlabankanum sem skrifuð eru út í peningastefnunni, í Peningamálum, að horft verði til þess hvernig menn ætla að beita opinberu fjármálunum. Þetta er stóra samhengi hlutanna sem svo klassískt er að þingið vill ekki horfast í augu við heldur boða að hægt sé að gera allt fyrir alla án þess að það hafi nein áhrif á verðgildi peninganna í landinu. Þetta er einfaldlega ekki svona.

Það sem okkur hefur tekist að gera er að tryggja hér vaxandi kaupmátt allra og því er spáð að það haldi áfram. Menn verða að horfa á spána um hagvöxt á næsta ári. Við búum í kraftmiklu samfélagi þar sem meira eða minna allar vélarnar eru komnar á snúning. Ferðaþjónustan er þar undantekning, m.a. út af takmörkunum á landamærunum og minni ferðavilja almennt. En hagkerfið er komið á fullan snúning. Við því hljótum við að bregðast með aðeins öðrum hætti en þegar allt er í frjálsu falli. Það er ekki alltaf tími til að auka skuldsetningu á kostnað skattgreiðenda. Skuldsetningin er orðin nóg. Nú ætlum við að vinda ofan af henni með því að draga úr hallanum ár eftir ár og byggja aftur upp til framtíðar.

Húsnæðismarkaðurinn er síðan alveg sérmál. Auðvitað hlýtur það að hafa áhrif að vextir hafa hækkað að nýju. Það var fyrst og fremst fyrir mun lægri vexti, lægstu vexti í Íslandssögunni, sem eignaverð fór upp hér eins og annars staðar. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að það mun breytast. Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að fyrstu íbúðarkaupendur hafa aldrei verið fleiri. Húsnæðisvextir eru enn mjög hagstæðir í sögulegu samhengi og við horfum fram til þess að sá markaður finni aftur nýtt jafnvægi.