152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna. Mér fannst margt áhugavert koma fram, sumt sem ég er kannski ekki endilega alveg sammála en svo var annað sem mér fannst mikilvægt að hæstv. ráðherra drægi fram. Það var m.a. að hann gat þess að vindar væru að snúast og að við yrðum að fara varlega á útgjaldahliðinni. Ég fagna þeim orðum. Ég tel mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það, sama hvaða skoðanir við höfum síðan á útgjöldunum. Við höfum öll ákveðnar skoðanir á þeim og ég mun fara yfir það í ræðu minni. En við verðum að fara varlega á útgjaldahliðinni næstu misserin og árin. Það er rétt að draga fram að Viðreisn studdi hvert einasta skref ríkisstjórnarinnar varðandi það að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin og láta samfélagið fúnkera á Covid-tímum. Það var ekki spurning. Við gagnrýndum ríkisstjórnina frekar fyrir að stíga ekki nægilega stór skref. Síðan er hitt að fyrir Covid voru útgjöldin orðin meiri en tekjurnar. Ríkissjóður fyrir Covid, haustið 2019, var ekki sjálfbær, eins og við munum vel. Það er áhyggjuefni. Núna sjáum við m.a. það sem við í Viðreisn höfum reglulega verið að benda á, að á hverju ári hjá þessari ríkisstjórn hefur opinberum störfum fjölgað um ríflega 2.100 á ári, samtals tæplega 9.000 störf. Erum við með árangursmælikvarða á það hvernig við aukum þá skilvirkni hjá hinu opinbera, m.a. hjá ríkinu? Gott og vel, það er ekkert að því að fjölga opinberum störfum, það er ekki málið, svo lengi sem þjónustan batnar. En við erum enn að glíma við fráflæðisvanda frá sjúkrahúsinu, frá LSH. Við erum enn að glíma við langa biðlista, bæði hjá börnum og fullorðnum, m.a. biðlista fullorðinna í liðskiptaaðgerðir o.s.frv. Þannig að mín spurning til hæstv. ráðherra er: (Forseti hringir.) Hvernig sér hann fram á að auka skilvirkni í opinberum rekstri og hvaða augum lítur hann (Forseti hringir.) þessa miklu fjölgun opinberra starfa þegar þjónustan á móti hefur ekki batnað sem skyldi?