152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguræðuna. Það er eins og gengur fleiri atriði sem koma til hugar en tími er til að fara yfir. En mig langar að byrja á því, í ljósi frétta af þessari miklu fjölgun ríkisstarfsmanna, að spyrja hvort hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hafi yfirsýn yfir þau viðbótarverkefni og stofnanir sem tilgreindar eru í stjórnarsáttmálanum. Það var hér sérstaklega einn hv. framsögumaður í gær sem situr í ráðherrastól sem ég veitti athygli að tilgreindi allmargar nýjar stofnanir sem áætlað væri að setja á laggirnar á kjörtímabilinu. Er einhver yfirsýn um þetta atriði?

Annað sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um er tryggingagjaldið sem ég hef svo sem oft rætt á þessum vettvangi. Það getur verið ósanngjarnt að spyrja út í tölur í frumvarpinu en þetta eru svo stórar tölur og mikið ræddar að ég treysti því að hæstv. ráðherra eigi svar við þessu. Ég veiti því athygli að það er áætlað að tryggingagjald fari úr 93 milljörðum miðað við endurmat á rekstrargrunni fyrir árið 2021 upp í 107 sem er 14,8% aukning á milli ára. Á sama tíma og við horfum á atvinnuleysistölur orðnar tiltölulega lágar og þessa miklu fjölgun ríkisstarfsmanna þegar til komna þá velti ég hreinlega fyrir mér: Getur verið að við séum að horfa á langhæstu hlutfallsaukningu tekjuliða á tryggingagjaldinu einu og sér?

Þessu til viðbótar langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem kom fram í framsöguræðu hans um að það verði aukið um milljarð á ári í loftslagsmál næstu tíu árin, ef ég skildi rétt, þannig að þá yrði orðin varanleg viðbót upp á 10 milljarða á ári að loknu því tímabili miðað við það sem nú er. Hver er afstaða hæstv. ráðherra til akkúrat þessarar útgjaldaaukningar?